143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að halda afskaplega stutta ræðu. Mér fannst hv. þm. Brynjar Níelsson koma fram með merkar hugmyndir. Þær voru að minnsta kosti merkar fyrir mig sem hef ekki þá viðamiklu þekkingu, hvað þá reynslu, á dómskerfinu sem hann hefur. Hann hefur lagt fram hugmyndir sem hann telur samkvæmt sinni, eins og hann sagði, persónulegu reynslu að yrðu til farsældar fyrir dómstóla landsins. Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort hún sé sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um að það yrði til farsældar og líka sparnaðar að fjölga löglærðum fulltrúum og láta þá vinna störf sem dómarar landsins eru að vinna í dag. Ef hæstv. innanríkisráðherra hefur á því skoðun þætti mér fróðlegt að fá að heyra hana.

Að öðru leyti, ef hún hefur ekki mótað sér skoðun á því, leggst ég eigi að síður jafn glaður til hvíldar þegar þessum degi sleppir.