143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:23]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. innanríkisráðherra skuli stíga það skref að fækka stofnunum. Ég velti þó fyrir mér hvort ekki eigi að stíga stærri skref og sameina Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið. Ég held að það séu rök fyrir því að skera núna upp eftirlitskerfið, efla þær einingar sem eftir verða og gera þær betur í stakk búnar að sinna sínu löggilta hlutverki. Vandinn kann hins vegar að vera sá að Samkeppniseftirlitið er á forræði annars ráðherra en hæstv. innanríkisráðherra.

Spurning mín er til hæstv. innanríkisráðherra: Hafa farið fram einhverjar viðræður á milli atvinnuvegaráðuneytis annars vegar og innanríkisráðuneytisins hins vegar um hugsanlega sameiningu eða frekari samvinnu þessara tveggja stofnana? Ef svo er ekki, kemur það til greina? Hér er um verulega fjármuni að ræða. Samkeppniseftirlitið fær tæplega 400 milljónir króna á komandi ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi og Neytendastofa um 184 milljónir kr. Ég hygg að hægt sé að ná töluverðum sparnaði með samþættingu þessara stofnana.