143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin, þau gleðja mig. Það er ekki alltaf sem maður heyrir hæstv. ráðherra tala með þeim hætti að hann sækist ekki eftir að auka völd sín heldur minnka áhrif sín og völd og færa þau annað, jafnvel út til almennings.

Ég hef nefnilega áhyggjur af því sem gerst hefur hér á síðustu árum þegar kemur að eftirlitsiðnaðinum sem er orðinn alveg gríðarlega stór iðnaður. Beinn kostnaður er líklegast á bilinu 16–18 milljarðar króna og óbeinn kostnaður þjóðfélagsins við að halda uppi eftirlitskerfinu öllu er líklegast á bilinu 35–40 milljarðar. Það er alveg ljóst að á endanum eru það neytendur sem bera þann kostnað. Það er því gríðarlega mikilvægt að huga að þeim þætti. Ég ætti nú kannski að beina orðum mínum einnig til hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, að hann hugi sérstaklega að því (Gripið fram í.) hvort ekki sé hægt að ná fram auknu hagræði og sveigjanleika í eftirlitskerfinu þannig að neytendur standi betur eftir og spari kannski eitthvað af þeim 35–40 milljörðum sem kerfið kostar þá á hverju ári.