143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að við hv. þm. Óli Björn Kárason deilum skoðunum í þessu eins og svo mörgu öðru. Ég nota tækifærið til þess að hvetja þingmenn og okkur öll til þess að skoða sameiningar stofnana, til þess að skoða það að vinna verkefnin öðruvísi, ég hvet okkur til þess að gera það þvert á ráðuneyti. Við eigum ekki að vera að velta því fyrir okkur nákvæmlega hvaða verkefni heyri undir hvaða ráðherra eða ráðuneyti heldur að vinna þannig með hlutina að okkur auðnist að þjónusta almenning eins vel og mögulegt er, að halda hér uppi góðri neytendavernd og halda hér uppi þeim réttindum sem við viljum sannarlega halda á lofti. En við verðum auðvitað að gera það með hagræðingu í huga og þannig að við nýtum fjármagnið sem best.

Óháð hagræðingarhópum þá finnst mér við hugsa þetta of mikið í hólfum og kössum í staðinn fyrir að hugsa um verkefnið í heild sinni og hugsa hvernig við þjónustum almenning best. Hv. þm. Óli Björn Kárason, ég held við getum verið sammála um að almenningurinn þarna úti er ekkert að velta því fyrir sér hvort þetta verkefni heyri undir einn ráðherra frekar en annan. Við erum einungis að hugsa um að þjónusta fólk sem best og á sem hagkvæmastan hátt og þannig að fjármagn skattborgara nýtist sem best.