143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Sumar af þeim nægir ekki að fara yfir í stuttu andsvari og verður sjálfsagt farið betur yfir á vettvangi nefndarinnar. Að stærstu leyti fara öll verkefni talsmanns neytenda, eins og kemur fram, undir stofnunina. Hins vegar fylgdu sérstakri stofnun að sjálfsögðu ákveðnar heimildir sem Neytendastofa hefur einnig heimildir gagnvart þannig að í frumvarpinu er verið að samræma þetta og vinna með það, en það á ekki að draga úr þeim þáttum er lutu að verkefnum talsmanns neytenda. Bara þannig að það sé á hreinu. Auðvitað eru ákveðnar breytingar sem fela í sér að þetta var sérstakt embætti. Nú er það það ekki lengur.

Við erum að gera það að einni stofnun sem veldur því að heimildirnar breytast örlítið en holt og bolt eru verkefnin alveg þau sömu. Eins og kemur fram í öllum þeim skýrslum, og þær eru fleiri en ein, sem hafa verið skrifaðar um neytendamál á Íslandi og mikilvægi þess að setja þau í þennan farveg er það álit og skoðun langflestra sem að málinu hafa komið og ég ítreka það, ég held allra sérfræðinga sem ég hef lesið gögn um, að það styrki stöðu neytenda á Íslandi að hafa þetta með þessum hætti, hin staðan hafi valdið ákveðnu óskýru verklagi. Ég held því að við séum að stíga framfaraskref. Hvað varðar einstakar valdheimildir hverfa þær að sumu leyti vegna þess að stofnunin er ekki lengur til og verkefnin fara undir aðra stofnun en það er ekki gert ráð fyrir því að verkefnin breytist.