143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum sem þekkir mjög vel til neytendamála og er betur að sér í mörgu þar en sú sem hér stendur. Ég get tekið undir langflest ef ekki allt sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að hér er stigið skref í rétta átt en auðvitað ekkert fullnaðarskref enda er tillagan ekki kynnt þannig og á ekki að þjóna þeim tilgangi.

Margt af því sem hv. þingmaður nefndi varðandi kvartanir og fleira tek ég undir. Það hefur ekki verið nægilega skýrt hvernig á því hefur verið haldið og þess vegna fylgja til dæmis ákveðnar heimildir ekki undir þessa löggjöf. Það er til þess að skerpa á ákveðnum hlutum og tryggja að ljóst sé hver sinni ákveðnum verkefnum.

Ég tek líka undir það heils hugar með hv. þingmanni er varðar skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands, sem var gefin út í maí 2008 og ég nefndi hér aðeins í upphafi, þar sem var varpað fram ákveðinni framtíðarsýn um yfirstjórn og skipulag neytendamála. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að í þessu frumvarpi birtist það ekki nákvæmlega. Það er samt afar margt þar sem ég held að við getum notað í því sem við vorum að ræða hér áðan um framtíðarskipan þessara mála og fyrirkomulag.

Varðandi fræðsluna þá er ekki, eins og hægt er að lesa í frumvarpinu og athugasemdum við einstaka greinar, fjallað um það hvernig eigi að taka á því máli þó að viðbótin sé sannarlega þarna inni. Talað er um að það sé ekki sérstaklega mælt fyrir um hvernig Neytendastofa skuli stuðla að slíkri fræðslu enda eigi stofnunin að hafa ákveðið sjálfdæmi um það hvernig hún og forsvarsmenn hennar telja farsælast að halda á því.

Ég held ég hafi svarað öllu sem hv. þingmaður beindi til mín.