143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í þessa umræðu. Þetta er stór málaflokkur, neytendamál standa okkur öllum nærri og hefur verið svolítið dreifður, eins og hér hefur komið fram, innan stjórnsýslunnar og margt mjög ruglingslegt þar. Þetta er því hið besta mál enda kemur fram í þeirri ágætu skýrslu sem vitnað er til í frumvarpinu að mikil þörf sé á að einfalda það sem kallað hefur verið leiðakerfi neytenda og skipulagningu neytendamála á Íslandi.

Það er oft og tíðum flókið fyrir okkur neytendur og villandi hvert og hvar við eigum að leita leiða til að fá úrlausn okkar mála. Hlutverk stjórnsýslunnar hlýtur alltaf að vera að stuðla að skilvirku, hagkvæmu og öflugu kerfi til að tryggja rétt neytenda í viðskiptum þannig að við velkjumst ekkert í vafa um það hvert við eigum að leita þegar við viljum láta úrskurða um réttindi okkar.

Hér hefur verið komið inn á afar margt í þessu samhengi sem ég hafði ætlað að gera að umtalsefni. Ég tek undir það sem hefur komið fram og er skilgreint í lögunum, að talsmaður neytenda geti líka tekið upp mál að eigin frumkvæði en sjálfstæði hans er ekki nógu skýrt í þessu frumvarpi. Mér finnst það ekki vera alveg tryggt að einhver einn aðili haldi utan um þessi mál og sé í sömu stöðu gagnvart stjórnsýslunni og nú. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því.

Ég tek undir það sem hér var talað um áðan, um fræðsluna, af því að ef við ætlum að búa til virka neytendur sem eru sæmilega meðvitaðir um umhverfi sitt og réttindi og skyldur þá held ég að það þurfi að koma til fjármagn þar sem það er skilgreint að Neytendastofa skuli sinna fræðslu eða útbúa efni fyrir skólana eða með hvaða hætti það á nú að gera. Ég held að það þurfi að byrja þar eins og með svo margt annað ef við eigum að ná að hafa hér virka þegna.

Það er auðvitað rétt að sparnaðurinn er til staðar en ekki nema hluti af þeim tillögum sem þessi ágæti starfshópur skilaði af sér — og það kemur fram í frumvarpinu — mun koma til framkvæmda von bráðar. Langar mig því að spyrja hæstv. ráðherra hvaða tillögur það eru sem koma til framkvæmda von bráðar.

Að öðru leyti mundi ég vilja vita með hvaða hætti sjálfstæði viðkomandi aðila sem á að sinna þessum málum innan Neytendastofu verður tryggt. Ég er hlynnt sameiningu þessara stofnana. Ég held að þetta sé hluti af því að gera þetta skilvirkara en hef ákveðnar áhyggjur af þessu.