143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi einungis nota tækifærið hér í lokin til að þakka þessa brýningu sem sjálfsagt verður farið yfir á vettvangi hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég ítreka einnig að mikilvægt er við þá breytingu sem gerð verður með sameiningunni að menn nýti þá reynslu sem fengist hefur með þeim starfsmanni sem var talsmaður neytenda og hefur sinnt því starfi ljómandi vel. Það er mikilvægt að menn nýti þann reynslugrunn sem þaðan hefur fengist og yfirfæri hann yfir í þessi verkefni. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að fá þann aðila og þann ágæta starfsmann á sinn fund til þess að tryggja að við nýtum sem best að það verði samfella í því. Ef einhverjar athugasemdir eru varðandi það hvernig menn hafa unnið með þá úrskurði og þá vinnu vil ég að það verði skoðað í vinnunni á þinginu.