143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Gott að vita til þess að heimildin er til staðar hjá Neytendastofu til að krefjast lögbanns og hefja dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda. Þá er það spurning um verkefni. Eitt stærsta verkefni sem þarf að fara í til þess að tryggja hagsmuni neytenda, lántakenda á Íslandi, er að skoða dóminn sem féll í Evrópudómstólnum 14. mars á þessu ári um að ekki mætti vísa fólki út af heimilum sínum þrátt fyrir að landslög eða lánasamningar kvæðu á um að það þyrfti ekki að fara fyrir dómstóla, það mætti gera slíkt. Evrópudómstóllinn dæmdi 14. mars á þessu ári að það mætti ekki.

Hann dæmdi meðal annars á grundvelli laga um neytendaverndartilskipun Evrópusambandsins sem hefur verið innleidd í íslensk lög. Þannig að stóra spurningin er: Á það við á Íslandi? Og hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, eða Neytendastofa sem hefur þá heimild samkvæmt lögum til að hefja dómsmál sem þarf að hefja til að tryggja heildarhagsmuni neytenda, það er stórt verkefni. Þetta er stóra verkefnið, að fá úr því skorið hvort tilskipunin frá Evrópu sem hefur verið innleidd í íslensk lög um neytendalán verji ekki neytendur, verji ekki heimili neytenda, heimili lántakenda. Það er stóra verkefnið. Er það ekki verkefni sem hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir er til í að fara í?