143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er klárlega hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eru stór verkefni. Ég ítreka samt að tilgangur frumvarpsins sem við ræðum nú er ekki einvörðungu þessi. Hann er til að taka utan um á ákveðinn hátt öll málefni er lúta að neytendamálum á Íslandi. Ekki einungis með hliðsjón af því sem hv. þingmaður talaði um og við höfum áður rætt í þessum sal og ég hef átt orðastað við hv. þingmann um þau mál.

Ég þekki dóminn sem hv. þingmaður vísar til ágætlega. Hann er eins og hv. þingmaður þekkir líka ekki endilega talinn eiga við hér á landi og það veit hv. þingmaður og um það er ákveðinn ágreiningur. Tíminn leyfir okkur ekki að fara í efnislega (Gripið fram í.) umræðu um það. Fyrst og síðast erum við að ræða, hv. þingmaður, með mikilli virðingu, um breytingu á þessu verklagi.

Það sem hv. þingmaður virðist vera að bera á borð er að með þessu séum við að breyta eða koma í veg fyrir að verkefni sem talsmaður neytenda hefur haft með höndum — að verið sé að koma í veg fyrir það. Það er alls ekki verið að því. Það er verið að sameina það undir einum hatti þannig að sú barátta sem hv. þingmaður hefur ótal oft talað fyrir á þingi, það er ekki eðlisbreyting á henni, það er einungis formbreyting á því að nú heitir þetta Neytendastofa og verkefnin eru sameinuð. Út á það gengur það frumvarp sem er til umræðu. Efnisleg umræða um þann dóm sem hv. þingmaður nefnir bíður betri tíma og leyfir ekki lokaumræðu í gegnum stutt andsvör um þetta frumvarp.