143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[17:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég hélt því fram áðan að kostnaður við eftirlitskerfið væri á bilinu 35–40 milljarðar, ég held að ég hafi sagt það en ekki 30–40, er ég að tala um beinan og óbeinan kostnað. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson mundi gera vel í því að heimsækja til dæmis matvælafyrirtæki á Íslandi eða bifreiðaverkstæði, næst þegar hv. þingmaður fer með bílinn sinn á verkstæði, og ræða við forráðamenn fyrirtækja um þann kostnað sem þau verða fyrir við að sinna opinberu eftirliti sem verður stöðugt meira og meira og dýrara og dýrara. (ÖS: Þú veist allt …) Við getum tekið umræðu um það, hv. þingmaður, ég get tekið umræður um það. En það er alveg ljóst að beinn og óbeinn kostnaður þjóðfélagsins er á bilinu 35–40 milljarðar og ég byggi meðal annars á skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann og var birt árið 2004 fyrir forsætisráðuneytið þar sem fram komu upplýsingar sem ég hef síðan farið í gegnum og endurnýjað eða uppfært.

Það sem ég segi er: Við eigum að gera okkur grein fyrir því að fjöldi eftirlitsstofnana hefur ekkert með það að gera hvort hagsmunir neytenda séu tryggðir. Fjöldi eftirlitsstofnana hefur ekkert með það að gera að tryggja hér eðlilega og sanngjarna samkeppni. Það er ekki fjöldi eftirlitsstofnana eða hversu dýrar eða hversu mikið fjármagn fer til þessara eftirlitsstofnana sem tryggir hag neytenda eða leiðir til þess að eðlileg og sanngjörn samkeppni verði á milli fyrirtækja.