143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[17:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er vasklega gert hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni að gera tilraun til að skýra í einu tveggja mínútna andsvari hvernig hann ætlar að spara stórkostlegar upphæðir og sú tilraun mistókst. Hv. þingmaður gerði ekki annað en vísa í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem mat umfang þess sem hv. þingmaður kallar eftirlitsiðnaðinn, en ég minnist þess ekki að sú ágæta stofnun hafi bent á stofnanir eða eftirlit sem mætti leggja niður. Staðreyndin er sú, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að þetta er ekki bara til verndar neytendum, þetta er líka til verndar útflutningsgreinum Íslands.

Matvælaeftirlitsstofnanirnar, sem eru fleiri en ein eins og hv. þingmaður veit, eru fyrst og fremst settar upp til að tryggja að meginútflutningur Íslands, sem eru sjávarafurðir, komist á markað án þess að vera stöðvaðar á landamærum vegna þess að þeim sé áfátt hvað varðar gæðaeftirlit. Um það snýst málið.

Ef hv. þingmaður treystir sér til að benda á stofnanir á því sviði sem væri hægt að leggja niður, fínt, þá getum við sparað peninga. En getum við þá komið vörum okkar á markað? Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að fjöldi stofnananna segir ekkert til um gæði eftirlitsins og gæti meira að segja bent honum á leiðir til að skoða sameiningar viðamikilla eftirlitsstofnana. Það gæti sparað, tel ég, án þess að gæði eftirlitsins minnkuðu en það er mjög erfitt eigi að síður að gera það. Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmaður mega reyna sig á því en gæti hv. þingmaður nefnt mér einhver dæmi um stofnanir sem hann vill leggja saman eða leggja niður eða einhverja tegund eftirlits sem hann vill leggja niður?