143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[17:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að geta komið í veg fyrir Fjölmiðlastofu hefði hv. þingmaður þurft að stuðla að því með mér að Ísland gengi í Evrópusambandið. Það var meðal annars, og ekki síst, vegna fyrirmæla þaðan sem menn réðust í stofnun hennar. Þetta var hins vegar vasklega gert hjá hv. þingmanni. Hann kom hingað og nefndi fjölmörg dæmi. Það er kannski til marks um hvernig þróunin í stjórnmálum er að verða að helmingnum af þeim dæmum sem hv. þingmaður nefndi áðan er ég sammála. Ég er til dæmis, öndvert við þann ágæta mann sem situr hér úti í sal, þeirrar skoðunar að það eigi að skoða mjög rækilega að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Hins vegar hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjölda raka gegn því eins og ég hef komist að raun um á nokkuð þokkalegri og farsælli vegferð okkar saman síðustu árin.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni fyrr í umræðunni eins og það mætti skera burt margt af þessu eftirliti en nú hef ég komist á þá skoðun að hv. þingmaður er eftir allt saman ekki á móti því sem hann kallar sjálfur eftirlitsiðnað og vill bara að því sé hagað á annan hátt.

Það kann vel að vera að töluvert mikið megi spara með því að leggja sumar af þessum stofnunum niður. Ég var til dæmis þeirrar skoðunar á sínum tíma að það ætti að skoða samruna Skipulagsstofnunar og Landmælinga eða frekar Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar. Ég var þeirrar skoðunar. Ég hef kannski sérskoðanir á Landmælingum Íslands en ef hann þekkir mína sögu í því efni þá veit hann hvað ég vildi gera við hana á sínum tíma, en af pólitískum ástæðum tel ég ekki rétt að ég fari að rifja það upp hér á þessum degi.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans en sakna þess auðvitað að hann skuli ekki, okkur til upplýsingar, hafa haldið eina af sínum snjöllu ræðum til að leggja þetta enn gerr fyrir okkur. Ég treysti því að hann geri það þá að minnsta kosti skriflega til hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og annarra þeirra sem sitja í hagræðingarnefndinni sem, eins ég hef áður sagt þegar hv. þm. Unnur Brá var ekki hér, er greinilega búin að (Forseti hringir.) beiða upp og er ekkert að koma út úr. (UBK: Takk fyrir.)