143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[17:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil einungis í lokin þakka fyrir umræðuna. Hún hefur ekki bara málefnalegt og fræðslulegt gildi heldur á köflum líka mikið skemmtigildi og það er ekki verra. Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt, og ítreka það sem ég sagði áðan, að hér er verið að stíga ákveðið skref í neytendavernd. Ég held að það sé hárrétt sem hv. þingmaður sem talaði síðast, Össur Skarphéðinsson, talaði um, að við getum öll verið sammála um að við viljum tryggja hóflegt eftirlit og hóflegar ráðstafanir í þessu öllu. Ég vona að málið fái góða og málefnalega umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og að menn hugi að þeim breytingum, ef menn telja svo, eins og hér var rætt. Það sem situr helst í huga mér eftir umræðuna er í anda þeirra sáttastjórnmála sem ég trúi á. Það væri stórkostlegt afrek ef Alþingi mundi sammælast um þó ekki væri nema að nýta skattpeningana eins vel og við mögulega getum og að fækka ríkisstofnunum. Þá held ég að við hefðum náð talsverðum árangri.

En fyrst og síðast þakka ég fyrir umræðuna.