143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[17:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. flutningsmanni að tryggja verður jafnræði hér á milli einstaklinga, milli heimila. Að því leyti held ég að finna verði lausn á þeim vanda sem fjölmargir glíma við út af lánsveðum. Nú ætla ég ekki að segja til um hvort þetta er rétta lausnin, en það er alveg ljóst, og ég held að ég geti fullyrt það, að allir í þessum þingsal eru samstiga í því að tryggja að jafnræði sé á milli fólks, þannig að þeir sem hafa lánsveð verði að minnsta kosti ekki verr settir en þeir sem nutu þess að fara svokölluðu 110%-leiðina. Ég ætla ekki að ræða hvort hún hafi virkað með þeim hætti sem lagt var af stað með.

Ég vil hins vegar beina nokkrum spurningum til hv. flutningsmanns.

Í fyrsta lagi: Hvað veldur því að frumvarp af þessu tagi var ekki lagt fram fyrr en í sumar og síðan nú á haustmánuðum? Hvað kom í veg fyrir að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar legði fram frumvarp af þessu tagi þegar á árinu 2012 ef ekki fyrr, vegna þess að þetta vandamál hefur legið fyrir í mörg ár?

Ég vil líka spyrja hv. flutningsmann: Hvaða fjárhæðir er um að ræða? Hvaða skuldbindingar er ríkissjóður að gangast í gagnvart lífeyrissjóðunum? Býr hv. þingmaður yfir þeim upplýsingum?

Í þriðja lagi: Nú hafa einhverjir leyst til sín ábyrgðir, ábyrgðir sem þeir (Forseti hringir.) hafa gengið í. Hvernig á að leysa það mál svo að allir standi jafnt?