143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru gildar spurningar. Svarið við fyrstu spurningunni er ósköp einfaldlega það að það var í sjálfu sér ekki fyrr en langt var liðið á árið 2011 að endanlega varð ljóst að lánsveðshópurinn mundi ekki fá úrlausn sinna mála í gegnum 110%-leiðina, alla vega ekki í tilviki lífeyrissjóða. Fljótlega upp úr því var hafist handa við að kortleggja sérstaklega vanda þessa hóps, safna um það upplýsingum og hefja síðan viðræður við lífeyrissjóðina. Skemmst er frá því að segja að þær viðræður stóðu í meira en ár, frá því snemma á ári 2012 og þangað til í mars 2013, langar og strangar.

Auðvitað var reynt að afla upplýsinga eins og hægt var. Það var í raun ekki fyrr en samkomulagi hafði verið landað við lífeyrissjóðina sem forsendur voru fyrir því að leggja fram frumvarp til fullnustu því samkomulagi. Það tók allan þennan tíma. Ég hygg nú að einhverjir kannist við það og muni eftir því að með reglubundnum hætti var spurt að því í fjölmiðlum og fjallað um það hvernig gengi í þessum viðræðum.

Í öðru lagi: Hvaða fjárhæðir? Það er sömuleiðis verulegum vandkvæðum bundið að meta það nákvæmlega. Það mundi að sjálfsögðu ekki liggja fyrir fyrr en í lok aðgerðarinnar, en þó er hægt að áætla stærðargráðuna. Líklegasta mat á þætti ríkisins, þeim hluta sem lenti á ríkinu í þessari aðgerð, er stærðargráðan 2 til 3 milljarðar kr. — 2,5 til 4. Það er mjög erfitt að áætla það mikið nákvæmar. Við höfum tilteknar tölfræðilegar upplýsingar, þær eru reifaðar í greinargerð með frumvarpinu svo sem eins og að um tæplega 4.000 af hátt í 7.000 með lánsveð nýttu þau lán til íbúðakaupa. Að sjálfsögðu koma ekki aðrir til greina hér en þeir sem notuðu lánin með veðum í íbúðakaup, það eru þeir sem fengju niðurfærsluna.

Hvað með þá sem hafa leyst til sín ábyrgðir? Sem betur fer er ástæða til að ætla að ekki hafi verið mikið um það í tilviki (Forseti hringir.) lánsveðanna, einfaldlega vegna þess að öllum hefur verið þessi staða ljós og lífeyrissjóðirnir að minnsta kosti upplýsa að þeir hafi farið sér hægt (Forseti hringir.) og almennt ekki farið í slíkar aðgerðir.