143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[18:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi nota tækifærið og þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja þetta mál fram. Það var að því unnið á síðasta kjörtímabili og gríðarlega mikilvægt eins og hér hefur ítarlega verið farið yfir í umræðunum að þessi hópur sem sannarlega er illa settur fái einhverja úrlausn sinna mála. En það er ekki til að mæra flutningsmennina meira eða efni tillögunnar sem ég er hingað kominn heldur er ég kannski fyrst og fremst hingað kominn til að fagna því að hér sjáist a.m.k. einn þingmaður Framsóknarflokksins í salnum. Það er býsna merkilegt að við umræðuna hefur virst svo vera að í Alþingishúsinu sé ekki að finna einn einasta af þeim 19 þingmönnum Framsóknarflokksins sem kjörnir voru til Alþingis á vordögum vegna skuldamála heimilanna og aðgerða í skuldamálum heimilanna.

Hér eru 19 þjóðkjörnir fulltrúar Framsóknarflokksins sem hafa gagngert verið kosnir á Alþingi til að fara í aðgerðir skyldar þeirri sem hér er til umfjöllunar í þágu skuldugra heimila í landinu. Við sem höfum talið að í þeim efnum þyrfti sannarlega lengra að ganga en unnt var að gera og gert var á síðasta kjörtímabili höfum bundið miklar vonir við framgöngu Framsóknarflokksins eftir kosningar. Því miður verður að segja eins og er að það er varla að hinir nýju þingmenn Framsóknarflokksins hafi í umræðum á Alþingi nefnt skuldir heimilanna einu orði. Það líða að minnsta kosti heilu dagarnir þar sem það efni er í engu nefnt og hér sjást engin frumvörp, engin tillögusmíð, sem lúta að skuldamálum heimilanna.

Ekki nóg með það heldur eru hinir nýju þingmenn Framsóknarflokksins og hinir gömlu út af fyrir sig líka, allir þeir 19 þingmenn Framsóknarflokksins sem kjörnir voru á vordögum, svo atkvæðalitlir í þessu helsta baráttumáli sínu, skuldamálum heimilanna að formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson, hefur gert sér ferð í fjölmiðla til að lýsa því yfir á opinberum vettvangi að heitstrengingar framsóknarmanna í því að gera leiðréttingu á verðtryggðum skuldum heimilanna — upp á ein 16,7% held ég að ég fari rétt með — og yfirlýsingar forsætisráðherra Framsóknarflokksins um að stjórnarsáttmálinn sé um að gera það, séu bara vangaveltur.

Hver eru svör Framsóknarflokksins? Það er helst að Björn Ingi Hrafnsson í „Orðinu á götunni“ hafi dug í sér til að láta Sjálfstæðisflokkinn heyra það þegar Sjálfstæðisflokkurinn gerir lítið úr áherslum Framsóknarflokksins í opinberri umfjöllun. Það hefur Björn Ingi Hrafnsson gert ítrekað, síðast í gær í framhaldi af viðtali við formann Sjálfstæðisflokksins á Bloomberg. En þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki svo ég hafi orðið var við og er þó býsna þaulsætinn í salnum gert sér eina einustu ferð í ræðustólinn til að lýsa því yfir að það sé rangt hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að þetta séu einhverjar vangaveltur. Og enginn þingmaður Framsóknarflokksins hefur enn þá komið hingað í ræðustól Alþingis og sagt að það sé samkomulag stjórnarflokkanna um að gera þetta og þetta séu engar vangaveltur.

Það var í gær sem formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað að gera ekki bara lítið úr áformum Framsóknarflokksins í innlendum fjölmiðlum heldur gerði sér sérstaklega ferð í heimspressuna og lýsti því yfir á Bloomberg að það sem Framsóknarflokkurinn hefur lofað að gerist í nóvember gerist nú sennilega ekki fyrr en á næsta ári ef það gerist, og að nefndirnar sem hæstv. forsætisráðherra lofaði að mundu skila niðurstöðum í nóvember mundu kannski vonandi skila fyrir áramót, þ.e. í lok desember.

Og enn hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins og enginn ráðherra Framsóknarflokksins haft döngun í sér til að ganga í þennan ræðustól og segja kjósendum flokksins sem fylgjast með umræðum á Alþingi og fylgjast með yfirlýsingum formanns Sjálfstæðisflokksins og auðvitað margvíslegum fregnum af því hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt um kosningaloforð Framsóknar, fyrir hönd Framsóknarflokksins, að svona sé þessu ekki varið, að þetta séu ekki vangaveltur og verði ekki látið bíða næsta árs heldur standi loforðin um nóvember og yfirlýsingarnar um að það eigi að gera eitthvað standi, ekki sé bara verið að hugsa um að kannski einhvern tímann verði kannski eitthvað gert fyrir einhverja.

Ég er þess vegna hingað kominn í ræðustól til að auglýsa eftir 19 þingmönnum Framsóknarflokksins og spyrja hvort einhver þingmaður Framsóknarflokksins sé í húsinu eða úti á skrifstofu sinni og sé tilbúinn til að koma hingað í ræðustól Alþingis og gera grein fyrir áformum Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna eða hvort það eigi bara að standa hér sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson hefur látið hafa eftir sér að það muni ekkert gerast á þessu ári og þetta séu bara vangaveltur.

Ef enginn þingmaður Framsóknarflokksins og enginn ráðherra Framsóknarflokksins treystir sér til að ganga í ræðustól og lýsa því yfir að orð skuli standa og að búið sé að semja um á vettvangi ríkisstjórnarinnar að ráðast í leiðréttingar á verðtryggðum lánum og útfærslan á þeirri ákvörðun verði kynnt í nóvember, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það fyrr á árinu, hvað má þá álykta? Og nefndirnar, sem eru ekki nefndir vegna þess að þær áttu ekki að fjalla um hvort ætti að gera þetta heldur einvörðungu að útfæra það sem ákveðið hafði verið.

Ef Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki til að gefa það út opinberlega héðan úr ræðustól Alþingis að heitstrengingar hans og fyrirheit til heimilanna í landinu standi eins og stafur á bók er ekki hægt að álykta neitt annað og maður verður bara að trúa því að Framsóknarflokknum hafi verið ýtt til hliðar í þessum málum. Það sé bara formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem ráði úrslitum þessara mála og að hér muni ekkert gerast á yfirstandandi ári og að það sem kannski muni gerast á næsta ári eða því þarnæsta sé enn þá á einhverju vangaveltustigi.

Telur enginn af 19 þingmönnum Framsóknarflokksins að kjósendur flokksins eigi heimtingu á því að heyra skýrt og ákveðið frá kjörnum fulltrúa Framsóknarflokksins hver staðan er í skuldamálum heimilanna eftir yfirlýsingar formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, um að það væru bara vangaveltur sem kæmu alla vega ekki til framkvæmda á þessu ári? Er enginn þingmaður Framsóknarflokksins hér í húsinu eða úti á skrifstofum sínum sem hét kjósendum því að berjast fyrir þessu málefni með oddi og egg og ætlar að taka af tvímæli um að það verði gert og það verði gert í nóvember eins og lofað var eftir kosningar?

Af því að ég sá að hér slæddist inn í salinn áðan einn þingmaður Framsóknarflokksins þá bind ég vonir við það að við heyrum loksins frá einum slíkum um þessi mál. Sá sem hér stendur hefur verið eindreginn talsmaður þess um margra ára skeið að gengið væri lengra til móts við skuldug heimili í landinu og fagnaði sérstaklega þeim fyrirætlunum Framsóknarflokksins. Ég verð að segja að ég hef saknað þess að þingmenn Framsóknarflokksins héldu uppi jafn einörðum málflutningi í skuldamálum heimilanna eftir að þeir voru kjörnir á þing eins og þeir gerðu áður en þeir voru kjörnir.