143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[18:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég kem hingað upp einvörðungu til að segja að ég styð þetta frumvarp eindregið. Ég vil skora á þingið að setja þetta mál í forgang við afgreiðslu og tek jafnframt undir það að ég hef saknað þess að hér séu engir ráðherrar frá hæstv. ríkisstjórn til að taka þátt í þessari umræðu. Þetta mál fellur undir það sem þeir hétu þjóðinni að gera fyrir kosningar.

Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir svolitlum vonbrigðum með að þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar beiti sér ekki meira og séu ekki sýnilegri í málefnum sem falla beint undir það sem ég hélt og mjög margir aðrir að væri akkúrat þeirra mál. Er það ekki þannig að það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur?

Það hefur alla vega verið þannig hjá mér og mínum flokkum að við höfum aldrei dregið þingmál í dilka eftir því hvaðan þau koma heldur hvers eðlis þau eru. Ég vil bara árétta það til þingheims að þannig ættum við að hafa það um öll mál.