143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

13. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans).

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:

a. 4. mgr. orðast svo:

Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru, enda sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Með vöru af íslenskum uppruna er átt við:

a. búvöru sem er ræktuð hér á landi, þ.e. kjöt og slíkar afurðir.

b. vöru sem er framleidd hér á landi, á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð,

c. nytjastofna sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi,

d. vöru, aðra en matvæli samkvæmt a–c-lið og e-lið, sem er hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefni komi erlendis frá,

e. matvæli, önnur en matvæli samkvæmt a–c-lið, sem hafa verið framleidd hér á landi í a.m.k. 50 ár eða samkvæmt sérstakri íslenskri hefð.

Vara telst ekki íslensk að uppruna ef hún er framleidd undir erlendu vörumerki. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki. Ráðuneytið veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja.

b-liður í 1. gr. hljóðar svo:

Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:

Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu. Ráðherra sker úr um álitaefni sem upp kunna að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.

Ég ætla nú að renna aðeins yfir greinargerðina og útskýra málið örlítið betur:

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Breytingin miðar að því að rýmka ákvæði 12. gr. sem heimilar notkun á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á íslenskum vörum.

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið er heimilt að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu enda sé sú starfsemi sem í hlut á að gæðum samkvæmt því sem forsætisráðuneyti mælir fyrir um með reglugerð og fánanum sé ekki óvirðing gerð. Gert er ráð fyrir því í ákvæðinu að leyfi sé fengið hjá ráðuneytinu fyrir notkun fánans samkvæmt framangreindu.

Þessi málsgrein var lögfest með lögum nr. 67/1998 sem voru undirbúin af nefnd sem var falið að endurskoða lögin, einkum 12. gr. þeirra. Markmið breytingar laganna á sínum tíma var að auka frjálsræði í notkun fánans. Það markmið náðist ekki því að aldrei hefur verið sett sú reglugerð hjá ráðuneytinu sem gert er ráð fyrir í lögunum enda hefur þótt erfitt að skilgreina viðmið um gæði. Þrátt fyrir að framangreind heimild hafi verið í lögunum í um 15 ár hefur enginn fengið leyfi til að nota fánann í þessu skyni.

Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að nota fánann við markaðssetningu vöru án þess að sérstaklega sé sótt um leyfi til þess. Undantekning frá þessu er þegar fáninn er notaður í vörumerki sem skal skrásetja hjá Einkaleyfastofunni en þá þarf leyfi ráðherra fyrir notkun fánans að liggja fyrir. Orðalagið „íslensk að uppruna“ er nýtt í lögunum og leggur þær skyldur á herðar þeim sem nota fánann að gera það ekki á röngum forsendum eða á villandi hátt.

Frumvarp þetta á sér nokkuð langa sögu og svarar til frumvarps sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi en fékkst ekki útrætt. Einnig lagði þáverandi forsætisráðherra fram lagafrumvörp sem fólu í sér sambærilega breytingu en þau fengust heldur ekki útrædd. Það var á 138. og 139. löggjafarþingi.

Ýmsir aðilar hafa látið sig málið varða á þessum tíma. Meðal annars hafa Bændasamtök Íslands og Samtök iðnaðarins sent þinginu umsagnir og ályktað um mikilvægi þess að unnt verði að nota þjóðfána Íslendinga til að auðkenna íslenska framleiðslu. Íslandsstofa hefur einnig unnið að undirbúningi málsins sem og Félag atvinnurekenda og fleiri.

Umsögn um áður framlagt frumvarp barst nefndasviði Alþingis þann 21. júní 2010 frá Bændasamtökum Íslands og les ég nú hluta bréfsins, með leyfi forseta:

„Bændasamtök Íslands fagna framlagningu ofangreinds frumvarps enda hafa samtökin í áraraðir beitt sér fyrir því, í samræmi við ályktanir búnaðarþings, að fá almenna heimild til notkunar þjóðfánans við markaðssetningu búvara.

Þó vilja samtökin benda á að þau telja ekki ljóst samkvæmt núgildandi lögum og ofangreindu frumvarpi til breytingar á þeim hver skuli hafa eftirlit með óleyfilegri notkun þjóðfánans á söluvarningi, umbúðum eða í auglýsingu vöru og þjónustu. Bændasamtök Íslands vilja þannig leggja áherslu á mikilvægi þess að nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun þjóðfánans með þessum hætti verði sett með reglugerð.“

Samtök iðnaðarins hafa einnig komið með beinum hætti að málinu eins og fyrr segir og sent nokkrar umsagnir þegar frumvarpið hefur verið lagt fram á fyrri þingum. Ég ætla að lesa upp úr bréfi frá Samtökum iðnaðarins sem barst nefndasviði Alþingis þann 3. júní 2010. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samtök iðnaðarins (SI) fagna þeim ásetningi stjórnvalda að heimila notkun þjóðfánans til að markaðssetja íslenska vöru og þjónustu að uppfylltum vissum skilyrðum. Hins vegar telja SI að það markmið breytingarinnar að gera möguleikann á notkun þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en áður hefur verið náist ekki nema samtímis verði sett reglugerð sem tekur af öll tvímæli um það hvenær vara telst vera að svo miklu leyti íslensk að notkun fánans sé réttlætanleg. Lagafrumvarpið eitt og sér tekur ekki af tvímæli um það.“

Bæði þessi samtök leggja því áherslu á að samhliða sé samin reglugerð hjá ráðuneytinu.

Í greinargerð með frumvarpinu eru tekin dæmi um vörur sem engum blandast hugur um að séu íslenskar eins og grænmeti sem ræktað er á Íslandi eða kjöt af íslenskum sláturdýrum. Einnig er gert ráð fyrir að heimildin nái til framleiðslu á íslenskri hönnun svo sem húsgögnum og fatnaði þótt úr erlendu hráefni sé. En hvað með íslensk matvæli önnur en þau sem að ofan eru nefnd, sem eru unnin frá grunni á Íslandi en að hluta eða öllu leyti úr innfluttu hráefni, svo sem unnar kjöt- og mjólkurvörur, íslenskt sælgæti, brauð, kökur og kex? Sama á við um fjölmargar aðrar vörur sem eru að meira eða minna leyti íslenskar en erfitt hefur reynst að draga mörkin á milli. Opinberar stofnanir jafnt sem einkaaðilar hafa í áratugi reynt að svara spurningunni um hvenær vara sé íslensk og hvenær ekki og jafnan gefist upp á því að draga þau mörk.

Samtök iðnaðarins taka heils hugar undir að forsendan fyrir notkun íslenska fánans við markaðssetningu verði ekki á röngum forsendum eða villandi. Bæði þessi stóru samtök eru því með mjög svipaða sýn á það frumvarp sem áður var lagt fram, þ.e. að leyfa notkun fánans en reglur séu ekki villandi og eftirfylgni verði með reglugerð og eftirliti.

Ég tel að með þessu endurbætta frumvarpi hafi þessum ábendingum verið mætt. Í b-lið 1. gr. segir:

Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.

Ráðherra sker úr um álitaefni sem upp kunna að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.

Þetta þýðir að þegar ekki er alveg skýrt hvort varan sé íslensk framleiðsla eða ekki liggur úrskurðarvaldið hjá forsætisráðherra.

Einnig hefur e-lið verið bætt við skilgreiningarnar, þ.e. matvæli önnur en matvæli samkvæmt a–c-lið, þ.e. búvara, sjávarfang og grænmeti, sem hafa verið framleidd hér á landi í a.m.k. 50 ár eða samkvæmt sérstakri íslenskri hefð.

Þetta tel ég til mikilla bóta. Eins og fram kemur í umsögn Samtaka iðnaðarins þá segir það sig sjálft að kjöt og grænmeti sem ræktað er hér á landi og sjávarfang sem veitt er af íslenskum skipum innan íslenskrar landhelgi er íslensk framleiðsla. Aðrar vörur getur verið erfiðara að skilgreina, vörur eins og Nóakonfekt, Sæmundur í sparifötunum, sem við öll þekkjum, svo ekki sé minnst á hið afar þjóðlega og ómissandi malt og appelsín og Síríus suðusúkkulaði. Þessar vörur eru allar framleiddar úr erlendu hráefni en eru framleiddar hér og eru orðnar hluti af íslenskri matarhefð. Hið sama má segja um ýmsan séríslenskan mat eins og flatkökur, kleinur, þorramat o.fl. sem er með erlendu hráefni. Þessar vörur mundu þá falla undir e-lið frumvarpsins, samanber vara sem framleidd er hér á landi í a.m.k. 50 ár eða samkvæmt íslenskri hefð.

Hvað með fallega borðstofustólinn sem er hannaður af íslenskum hönnuði og framleiddur á Íslandi undir íslensku vörumerki en viðurinn og tauið kemur frá Afríku eða Indlandi? Slík vara mundi þá falla undir d-lið fyrir „vöru, aðra en matvæli skv. a–c-lið og e-lið, sem er hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefni komi erlendis frá“. Þessi skilgreining dekkar þessa hluti.

Þá situr eftir spurningin um vörur sem framleiddar eru úr íslensku hráefni og á Íslandi, vörur eins og kók. Slík vara fengi ekki að nota íslenska þjóðfánann á umbúðir þar sem vörumerkið er erlent samkvæmt 1. gr. þessa frumvarps. Ég les það aftur upp, með leyfi forseta:

„Vara telst ekki íslensk að uppruna ef hún er framleidd undir erlendu vörumerki.“

Þau sjónarmið sem búa að baki frumvarpinu lúta fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem heyrir undir a–c-lið, gengið að því vísu að vara sem merkt er íslenska þjóðfánanum sé í raun íslensk að uppruna. Ég segi það fyrir mig og ég tel að ég mæli fyrir munn margra að ég vil vita hvað ég borða. Það er mjög villandi fyrir neytendur að kaupa t.d. kjöt í íslenskum umbúðum en þegar betur er að gáð og smáa letrið rannsakað kemur í ljós að gripirnir sem kjötið kemur af eru aldir annars staðar í heiminum en afurðirnar unnar hér á landi og pakkað í íslenskar umbúðir. Þetta er blekkjandi og því þarf að setja stífari ramma um þessa hluti til að vernda neytendur.

Hugmyndin að baki þessu frumvarpi er einnig sú að þeir sem setja vöru á markað og vilja hefja hana til virðingar sem vöru af íslenskum uppruna, t.d. til að ná athygli erlendra ferðamanna, geta merkt hana þjóðfána Íslendinga sem væri þá merki um uppruna og ákveðin gæði. Oft þegar fólk ferðast til annarra landa hefur það ekki bara áhuga á að skoða náttúruna heldur einnig að kynnast menningu landsins og matarmenning er hluti af því. Þegar ferðamaður kemur auga á íslenska fánann á matvöru er hann e.t.v. líklegri til að kaupa hana þar sem hún vekur forvitni sem íslensk matvara. Íslensk matvara hefur líka þá ímynd að vera hrein og því hjálpa þessir þættir allir til við að efla markaðssetningu á íslenskum matvörum.

Ég vil einnig í þessu samhengi nefna íslensku lopapeysuna. Hún er mjög vinsæl hjá erlendum ferðamönnum enda falleg, hlý og eiguleg. Það hefur gerst að fólk hefur talið sig vera að kaupa íslenska gæðavöru en þegar málið er kannað kemur í ljós að ullin er erlend og framleiðslan fer jafnvel líka fram erlendis. Það eina sem er raunverulega íslenskt er vörumerkið. Þetta er ekki rétt og með þessum hætti eru neytendur blekktir; ekki það að erlend framleiðsla sé endilega verri en íslensk heldur vill maður vita hvað maður er að kaupa, það er málið.

Eins og áður hefur verið nefnt hefur sambærilegt frumvarp verið lagt fram nokkrum sinnum á fyrri þingum. Það hefur eiginlega verið vandinn allan tímann að skilgreina hvað sé íslensk framleiðsla. Meginbreytingin á þessu frumvarpi til samanburðar við fyrri frumvörp er að skilgreiningar hafa verið skerptar til muna. Einnig var áður fjallað um fánatímann í sama frumvarpi sem flækti málið óþarflega mikið að mínu mati. Ég kaus því að búa til annað frumvarp sem fjallar sérstaklega um fánatímann þar sem fánatíminn og vörumerkingar eru lítið skyld í eðli sínu þó að sami lagabálkur gildi um bæði málin. Það má því e.t.v. líkja þessum tveimur þjóðfánafrumvörpum við systkini; þau eru tengd en ekki sami einstaklingurinn.

Ég mun mæla fyrir fánatímafrumvarpinu á eftir þegar umræðu í þessu máli er lokið. En að lokum tel ég að það yrði til mikilla bóta fyrir íslenska framleiðslu ef þetta frumvarp hlyti náð fyrir augum þingsins og fengist samþykkt.