143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

86. mál
[19:25]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs sem áhugamaður um þjóðfánann okkar til að lýsa yfir ánægju minni með frumvarpið og þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að flytja þetta góða frumvarp.

Virðulegi forseti. Eiginkona mín er af erlendu bergi brotin og sem slík hefur hún annað sjónarhorn á það hvernig við Íslendingar notum þjóðfánann okkar. Hún hefur minnst á það nokkrum sinnum við mig af undrun hvers vegna við Íslendingar notum ekki þjóðfánann okkar meira, hvers vegna hann sé til dæmis ekki á íslenskum vörum, hvers vegna hann blakti ekki oftar við hún við hús okkar.

Ég tel að þetta frumvarp sé mjög gott skref í þá átt, ásamt síðasta frumvarpi sem hér var flutt um þjóðfánann, að við notum þjóðfána okkar meira og jafnvel vona ég og hvet Alþingi til að ganga enn lengra í þessum efnum í framtíðinni.