143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að það stendur ekkert annað til en að halda lífi í þverpólitíska samráðinu. Ég vonast til að það verði áfram þannig að við getum nálgast þetta viðfangsefni þvert á flokka sem sameiginlegt verkefni okkar á þingi vegna þess hversu miklir efnahagslegir hagsmunir eru undir.

Um áætlunina að öðru leyti vil ég segja að uppfærð áætlun mundi í sjálfu sér ekki gera annað en að taka mið af þeim breytingum sem átt hafa sér stað, t.d. varðandi lækkun á umfangi aflandskrónustabbans frá því að síðasta áætlun var samþykkt og hún mundi taka mið af þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur í millitíðinni. Að einhverju leyti kunna að birtast í nýrri áætlun breyttar áherslur (Forseti hringir.) varðandi framgang málsins en það er fyrir okkur á hinum þverpólitíska samráðsvettvangi að ræða nánar.