143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

varðveisla handritanna í Þjóðmenningarhúsinu.

[10:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmanni að við fögnum nú afmæli Árna handritasafnara sem ég tel að Árnastofnun standi virkilega vel að. Það er stofnuninni til mikils sóma hvernig hans er minnst.

Um það mál sem hér er nefnt varðandi handritin og sýninguna í Þjóðmenningarhúsinu verður bara að segjast eins og er að það er ekki mál sem ég hef vald á. Það er þó alveg ljóst að þegar fyrir lá að ekki væri sólarhringsgæsla í því húsi var sýningunni auðvitað sjálfhætt. Það er ekki tekin nein áhætta með handritin sé gæslu þeirra með nokkru ábótavant. Ég held að allir hv. þingmenn hljóti að vera sammála um að það var nauðsynleg ákvörðun og eðlileg.

Hvað varðar aftur á móti framtíðina hvað þetta varðar og Hús íslenskra fræða hefur það margsinnis komið fram, hjá mér og í fjárlögum og annars staðar, að um er að ræða frestun framkvæmda. Þær framkvæmdir hafa ekki verið slegnar af heldur er verið að bíða eftir betra færi í ríkisrekstrinum til þess að geta ráðist í framkvæmdirnar.