143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

flóttamenn frá Sýrlandi.

[11:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að Íslendingar eins og aðrir þurfa að sýna samstöðu og sýna í ræðu og riti hvar hugur okkar stendur og ef við mögulega getum að sýna það að sjálfsögðu líka í verki. Það er það sem ég sagði í fyrra svari mínu að við mundum gera.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög æskilegt ef við getum gert þetta mjög hratt, ef við getum markað stefnu varðandi þetta því að það skiptir máli núna, vegna fjárlagagerðarinnar. Ef við ætlum að taka á móti fleiri flóttamönnum en gert er ráð fyrir í dag, miðað við þær áætlanir, þarf að sjálfsögðu fjármuni til þess. Þetta er einfaldlega þannig að það kostar peninga að taka við flóttamönnum, hvort sem við mundum vilja taka við tveimur eða tíu þá kostar þetta allt fjármuni.

Ég tek undir með hv. þingmanni, við munum reyna að hraða því að skoða þetta mál.