143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að inna hæstv. ráðherra eftir áformum eða stefnu núverandi ríkisstjórnar um fæðingarorlofsmál. Það er rík ástæða til að ræða þau mál í ljósi þess sem birtist okkur í bæði fjárlagafrumvarpi og tekjuöflunarbandormi sem því tengist. Þar eru slegin af öll áform um lengingu fæðingarorlofsins í áföngum sem lögfest voru hér á síðasta kjörtímabili, sem sagt lenging úr níu mánuðum í tólf í áföngum á árunum 2014–2016. Það sem meira er; tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs er þannig meðhöndlaður í þessum frumvörpum að sá hluti almenns tryggingagjalds sem gengur til Fæðingarorlofssjóðs, sem vel að merkja er sjálfstæður sjóður í vörslu Vinnumálastofnunar, ekki bara einhver reikningur hjá ríkisstjórn, er lækkaður úr 1,28% af tryggingagjaldsstofni niður í 0,65%. Tekjustofninn er sem sagt rétt tæplega helmingaður.

Þetta leiðir til þess, miðað við þau gögn sem ég hef frá Fæðingarorlofssjóði, að umtalsverður halli verður á rekstri sjóðsins á næsta ári og hann mun ganga á innstæðu sína sem vissulega er nokkur miðað við áætlun um uppgjör sjóðsins í lok þessa árs. Það er engu að síður ljóst að ekki léttir það róðurinn fyrir úrbætur í fæðingarorlofsmálum á komandi árum þegar búið er að helminga tekjustofninn og sjóðurinn rekinn með því að ganga á innstæður sínar sem kannski gætu dugað í tvö ár.

Það er líka umhugsunarefni hversu mikið hefur dregið úr greiðslum til fæðingarorlofs á undanförnum árum. Ef við lítum á það náðu þær greiðslur hámarki á árunum 2008 og 2009, voru þá tæplega 9,5 og 10,3 milljarðar kr. á verðlagi þeirra ára en hafa síðan farið lækkandi í 9,3 milljarða árið 2010, 8 milljarða 2011, 7,8 milljarða 2012 og áætlunin gerir ráð fyrir um 7,9 milljarða útgjöldum í ár. Þetta er á verðlagi hvers árs um sig og þá sjá menn hversu mikil raunlækkunin er orðin. Að sjálfsögðu koma þar skerðingarnar við sögu og líka lækkuð laun, sérstaklega mikil lækkun hærri launa, sem einhver áhrif hefur á útgjöldin en minni þó en ætla mætti vegna þaksins á greiðslur.

Það er því fullkomin ástæða til að hafa umtalsverðar áhyggjur af framtíðinni fyrir hönd þessa málaflokks. Meðan hæstv. ríkisstjórn sýnir ekki á önnur spil en þessi kvíði ég framtíðinni. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin stærir sig af því að vísu að hún hækki hámarksgreiðsluna um 20 þús. kr., úr 350 þús. kr. í 370 þús. kr., en eftir því sem ég fæ best séð er það ekki nema rétt rúmlega verðlagshækkun, sá liður tekur ekki verðbótum en lágmarksgreiðslurnar taka 3% eða 3,2% verðbótum. Það er ljóst að af þessum 20 þús. kr. hefði þurft um 10.500 kr. til að verðbæta fjárhæðina frá þessu ári. Þá standa eftir heilar 9.500 kr. í raunhækkun þaksins og er nú ekki mikið.

Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt áherslu á það, það litla sem ég hef frá henni heyrt, að lyfta þakinu. Ég spyr á móti: Eru því ekki einhver takmörk sett hversu skynsamlegt er að hafa þá áherslu á meðan menn komast ekkert áfram með að lengja fæðingarorlof? Það eru rúm tíu ár síðan okkar merka löggjöf um fæðingarorlof í núverandi mynd tók gildi. Það var 1. janúar 2003 og markaði auðvitað mikil tímamót en það er kominn tími á að við reynum að taka einhver skref í að komast í átt til eins árs fæðingarorlofs og byggja það kerfi aftur upp. Þar af leiðandi er dapurlegt að sjá í raun frekar afturför boðaða í þessum frumvörpum en framför.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur núverandi ríkisstjórn með þessu fallið frá öllum áformum um lengingu fæðingarorlofs? Er það ekki lengur inni á hennar kortum, samanber að þau lagaákvæði eru nú tekin úr sambandi og lenging um tvær vikur hjá hvoru foreldri á næsta ári er slegin af? Telur hæstv. ráðherra ekki mikilvægt að hafa áfram markmið um lengingu fæðingarorlofs inni eða er ríkisstjórnin þeirrar skoðunar að eingöngu eigi að lyfta þökunum og þá í einhverjum hænufetum á næstu árum? Hefur ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra einhverja sýn á það hvernig á að vinna að því framtíðarmarkmiði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla?

Ef fæðingarorlofið lengist ekki verður það verk torsóttara en ella sem nemur þeim mánuðum sem upp á vantar. Alveg nóg væri að glíma við það miðað við eins árs fæðingarorlof, (Forseti hringir.) hvað þá bara níu mánaða. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti upplýst okkur eitthvað um það hvort þessi ríkisstjórn hefur einhverja stefnu í málefnum fæðingarorlofs.