143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Áherslur ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í vinnu við að endurreisa efnahag og samfélag eftir hrun fjármálakerfis og gjaldmiðils voru þær að fara blandaða leið niðurskurðar og skattlagningar. Markmiðið var að stöðva skuldasöfnun ríkisins en ganga ekki of nærri einstaklingum og fyrirtækjum með skattlagningu og ganga ekki heldur svo langt í niðurskurði að þeir sem helst þurftu á þjónustu ríkisins að halda beri þyngstar byrðarnar af hruninu. Þak á hámarkstekjur í fæðingarorlofi var lækkað á meðan þeim sem minna höfðu úr að spila í almannatryggingakerfinu og atvinnuleysistryggingakerfinu var hlíft. Alltaf lá fyrir að um tímabundnar breytingar væri að ræða og á síðasta ári voru samþykktar á Alþingi áætlanir um að hækka hámarksviðmiðunartekjur í fæðingarorlofi og lengja fæðingarorlofið um tólf mánuði í áföngum. Samþykkt var skýr stefna stjórnvalda um þetta á síðasta ári.

Afar mikilvægt er að lengja fæðingarorlofið og allir þekkja þau vandræði sem upphefjast þegar fæðingarorlofi lýkur og börnin eru ekki komin í umsjón sveitarfélaganna, hjá dagforeldrum eða í leikskólum. En foreldrarnir eru hins vegar skuldbundnir vinnuveitanda að mæta til vinnu og það skapar mikið álag á ungar fjölskyldur í landinu, bæði á foreldrana og börnin. Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir ungar barnafjölskyldur að stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, um tólf mánaða fæðingarorlof, nái fram að ganga. Sú stefna stuðlar að því að bæta velferð og hag íslenskra barnafjölskyldna.

Ég skora á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að hvika ekki frá þeirri stefnu og standa vörð um hagsmuni barna í þessu máli og í áætlunum sínum og í framtíðarsýn sinni yfir kjörtímabilið að raða hag barna framar.