143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:33]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja þessa umræðu. Ég sat einn fund efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var greinilega að púsla þessu saman og komst að því, heyrðist mér þar, að þessi hækkun væri ekki upp á 20 þús. kr. heldur að raunvirði upp á 9 þús. kr. út af verðlagshækkunum. Það var ekki talað um þær upphæðir í fjárlagagerðinni þar sem þetta er borið fram.

Ég hef virkilegar áhyggjur af þessari framtíðarsýn fyrir Fæðingarorlofssjóð. Það er svolítið verið að redda sér og hér talar hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir um að það vanti að tryggja fjármagn í sjóðinn. Þetta er grundvallarmisskilningur, það er alveg tryggt fjármagn í Fæðingarorlofssjóð. Það var það að minnsta kosti. Það var í gegnum tryggingagjaldið sem ríkisstjórnin eða fjármálaráðherra eða ég veit ekki hver ákveður að helminga og þá er verið að kippa fótunum undan þessum sjóði, þ.e. helminga hann. Það er staðan og það er ákvörðun þessarar ríkisstjórnar.

Það er alveg hægt að hækka þakið. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það sé gott að hækka þetta þak en það er bara ekki nóg. Velferðarráðherra boðar nú fjölskyldustefnu og þar er aldeilis komið inn á lengingu fæðingarorlofs. Ég held að (Forseti hringir.) við ættum að skoða þetta í víðara samhengi.