143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er alveg rétt og engar nýjar fréttir að það var gripið niður í fæðingarorlofskerfinu til að draga úr útgjöldum á erfiðasta tímanum, en kerfið var varið og þar á meðal níu mánaða fæðingarorlof. Greiðslurnar voru um skeið ekki jafn ríkulegar en allan tímann stóð auðvitað vilji til þess að hefja uppbyggingu kerfisins á nýjan leik um leið og aðstæður bötnuðu. Það er að sjálfsögðu mikilvægt markmið að hækka hámarksgreiðsluna og ég get verið sammála því að til dæmis að ná henni upp í að minnsta kosti meðallaun í landinu væri mikilvægt skref og ætti að draga úr hættunni á því að feður tækju í vaxandi mæli ekkert eða lítið fæðingarorlof.

En það þarf að horfa á fleira í þeim efnum og ég spyr fólk: Hefur það kynnt sér lágmarksgreiðslurnar? Vita menn að mánaðarleg greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi er 94.900 kr. á mánuði? Eða vita menn að mánaðarlegur fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi er 57.400 kr. á mánuði? Ég hefði alveg eins viljað sjá einhverja fjármuni fara í að laga þetta. Ég endurtek að ef við næðum hámarksgreiðslunni upp í meðallaun í landinu tel ég tvímælalaust að við ættum í framhaldinu að hefja lengingu fæðingarorlofsins frekar en að fara með þakið enn hærra.

Einu verð ég að mótmæla hér mjög harðlega. Það er ósvífið af núverandi ríkisstjórn að halda því fram að áform um lengingu fæðingarorlofs og uppbyggingu kerfisins hafi verið ófjármögnuð. Hvað gerir núverandi ríkisstjórn? Hún sækir næstum helminginn af tekjustofni fæðingarorlofs og hirðir hann til sín. Fæðingarorlofssjóður hefði með óbreytt hlutfall af almennu tryggingagjaldi upp á 1,28% auðveldlega ráðið við lenginguna. En ríkisstjórnin tekur 0,63 prósentustig af tekjustofninum og hirðir hann til sín (Forseti hringir.) þannig að Fæðingarorlofssjóður verður rekinn með halla á næsta ári, upp á sennilega 2,5 milljarða kr. Það er afar ósvífið að setja málið í þetta samhengi. Í þessu tilviki var (Forseti hringir.) nefnilega staða sjóðsins sterk og hann hefði með óbreyttar tekjur ráðið við áformin um lengingu.