143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég held að við séum öll hér sammála um mikilvægi fæðingarorlofs til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði. Við erum líka öll sammála um mikilvægi fæðingarorlofs sem snýr að réttindum barna okkar, að þau fái að njóta umgengni við báða foreldra. Umræðan snýst þannig um forgangsröðunina og hún liggur fyrir hjá ríkisstjórninni. Við höfum í hyggju að taka til baka þær skerðingar sem farið var í á síðasta kjörtímabili áður en við förum að bæta við nýjum réttindum.

Ég vona að allir hafi áhyggjur af því að fæðingum fækkar hér á Íslandi og feður taka fæðingarorlof í minna mæli; feður nýta eigin rétt til að fara í fæðingarorlof en nýta sér í minna mæli sameiginlegan rétt. Það ætti að vera eitt af þeim verkefnum sem við tökum að okkur að hvetja til þess að feður nýti sameiginlegan rétt í auknum mæli frekar en móðir.

Ég vil gjarnan sjá það hér á Íslandi að þegar barn veikist á leikskóla þá sé jafn líklegt að það biðji um að hringt sé í pabba og mömmu, en það grundvallast á þeim nánu tengslum sem myndast á þeim tíma sem foreldrar eru í fæðingarorlofi, að það þyki jafn sjálfsagt. Að það sé jafn líklegt að stjórnendur fyrirtækja á Íslandi taki fæðingarorlof eins og þeir sem eru með lægstu tekjurnar og starfa í viðkomandi fyrirtæki. Það má ekki gerast að stjórnendur fyrirtækja séu jafnvel farnir að nefna það sérstaklega í viðtölum að þeir hafi ekki haft tíma til að taka fæðingarorlof eins og einhver ástæða sé til að nefna það sérstaklega eða gera opinbert.

Við eigum líka að horfa til þess að vera áfram framúrskarandi á þessu sviði, að vera byltingarkennd. Ég er ekkert endilega þeirrar skoðunar að við eigum að horfa allt of mikið til annarra Norðurlandaþjóða heldur kannski frekar hvetja þær til að horfa til okkar hvað snertir uppbyggingu fæðingarorlofs. Þær hafa ekki enn þá stigið (Forseti hringir.) það skref að binda ákveðinn hluta við föður eða móður. Ég hef sem samstarfsráðherra Norðurlandanna haft verulegar áhyggjur af þeirri kynjaskiptingu (Forseti hringir.) sem finnst á vinnumarkaðnum á Norðurlöndunum.