143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[12:08]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna og hennar ómetanlegu störf í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem formaður nefndarinnar á síðasta kjörtímabili. Ég veit að það hafa verið þung skref fyrir marga að þurfa að hlíta vilja þingsins í þessu máli því að hann endurspeglar svo sannarlega ekki vilja þjóðarinnar.

Ég var í kvöldverðarboði með forsætisnefnd og forseta Evrópuráðsþingsins og hann hældi þessu ferli svo mikið og nefndi sérstaklega að það væri einsdæmi að land bæði um álit Feneyjanefndarinnar. Yfirleitt er það Feneyjanefndin sem kallar eftir því að skoða stjórnarskrár þegar eitthvað er að þeim. Það var svo mikið reynt að gera þetta ferli sem faglegast og heiðarlegast og það er svo sorglegt hvernig málið fór. Við höfum enn tækifæri til að rétta kúrsinn af og ég skora á þingmenn að gera það hvar í hvaða flokki sem þeir eru. Stjórnarskrármálið er ekki flokksbundið mál, stjórnarskrármálið er mál þjóðarinnar og þjóðin er ekki margir flokkar heldur ein.