143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[12:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Alþingi og stjórnsýsla ríkisins á við mörg vandamál að stríða eða öllu heldur að skjólstæðingar þeirra eiga við mörg vandamál að stríða. Það er verk Alþingis að reyna að leysa þau vandamál eftir fremstu getu, að sjálfsögðu með hliðsjón af mannréttindum, borgararéttindum og lýðræðislegum grundvallaratriðum að öðru leyti. Mikið af okkar starfi ákvarðast af hefð, reyndar of mikið ef eitthvað er. Restin ákvarðast þegar allt kemur til alls af grunnlögum landsins, nefnilega stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Við höfum öll á hinu háa Alþingi svarið eið að gildandi stjórnarskrá vegna þess að við þurfum að hafa sameiginlegar leikreglur. Jafnvel þótt við séum ekki öll sátt við hverja einustu grein og þó að ég standi hér og mæli með gagngerðri endurskoðun stjórnarskrárinnar stend ég samt við þá sem þegar er til staðar og mun verja hana með kjafti og klóm komi til þess. Við gerum það öll jafnvel þótt við séum ósátt við hana. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það er stjórnarskráin sem gerir starf okkar og lýðræðið mögulegt til að byrja með. Það er vegna hennar sem við höfum réttindi. Hér er tækifæri til að styrkja lýðræðið og styrkja réttindi almennings alls.

Enn fremur lifum við á sögulegum tímum þar sem hvort tveggja aðfarir að réttindum fólks verða sífellt sjálfsagðari og kannski óljósari og tækifæri til betrumbóta eru fleiri en nokkru sinni fyrr.

Hrunið 2008 er ekki sem slíkt ástæðan fyrir því að nú sé kominn tími til að endurskoða stjórnarskrána heldur eru það einkenni sömu tíðar sem kalla á slíka endurskoðun, tíma hraða, tæknibyltinga, nýrra hugmynda og nýrra mistaka, nýrra lausna.

Málavextir eru nefnilega þannig að stjórnarskráin sem við búum við í dag var ekki samin með hliðsjón af nútímanum. Tjáningarfrelsið var ekki skilgreint með hliðsjón af internetinu svo augljóst dæmi sé tekið. Friðhelgi einkalífs tók ekki til stórfelldrar gagnasöfnunar og úrvinnslu slíkrar gagnasöfnunar. Trúfrelsið gerði ráð fyrir því að flestir yrðu alltaf meira eða minna kristnir. Síðan eru ýmis ákvæði sem var greinilega ekki ætlað að virka eins og þau gera í reynd í dag. Sem dæmi átti ríkisstjórnin ekki einfaldlega að ákveða hver yrði forseti Alþingis.

Hrunið átti sér ekki stað í tómarúmi heldur í skjóli ákveðins kerfis. Þetta kerfi er gamalt og að mörgu leyti úrelt eða öllu heldur tekur það ekki tillit til breyttra tíma og breyttra viðhorfa. Ef það væri bara eitt orð tiltækt til að lýsa hinum fjölmörgu, flóknu orsökum hrunsins væri það orðið andvaraleysi. Það eru dæmi um að hæstv. ráðherrar á fyrri tíð hafi kallað stjórnarskrána bara eitthvert plagg. Það er auðvitað tæknilega rétt en það lýsir vel stöðu mála þegar hæstv. ráðherrar sem jafnvel eru ekki hlynntir stjórnarskrárbreytingum nú tala þannig um núgildandi stjórnarskrá. Nú vil ég árétta að þetta er ekki gagnrýni á slík ummæli nema þá kannski orðalagið vegna þess að stjórnarskráin sem við höfum í dag er úr sér gengin á fleiri eina vegu.

Í fyrsta lagi tekur hún ekki tillit til breyttra viðhorfa og þarfa nútímans. Í öðru lagi heldur hún í stað ákveðnum hefðum sem hindra lýðræðisþróun á Íslandi. Eitthvað hefur verið talað um að frumvarpið sem þingsályktunartillaga þessi ræðir, tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga, heimili þjóðaratkvæðagreiðslu beint um málefni. Þetta var ekki endilega góð hugmynd árið 1874 vegna þess að menntunarstig þjóðarinnar var mjög lágt miðað við nútímann en kannski ekki síður vegna þess að tækifæri til samskipta og upplýsingaöflunar voru nær engin ef miðað er við nútímann. Tækniframfarir hafa ekki bara borið með sér tækifæri í útfærslu kosninga heldur tækifæri til meiri upplýsingar og aukinna samskipta um þær upplýsingar. Það er lítið mál að afla sér gagna um málefni nú til dags og taka frekar upplýsta ákvörðun. Sá hvati verður auðvitað ekki til staðar fyrr en ákvarðanir verða bindandi. Sé ábyrgðin engin þá lýsir hin lýðræðislega umræða sér fyrst og fremst í tilgangslausu tuði en það er ekkert nema einkenni máttleysis. Hvorki börn né fullorðið fólk stendur fyrir ábyrgð nema hún sé því gefin og nú er tækifærið. Við höfum upplýsta tæknivædda þjóð. Til að viðurkenna og nýta þetta tækifæri þarf stjórnarskrá sem tekur mið af þeim raunveruleika.

En frumvarpið sem þingsályktunartillaga þessi fjallar um býður ekki bara upp á lýðræðisumbætur í formi aukinnar þátttöku almennings heldur einnig umbóta á Alþingi sjálfu. Sem dæmi tilgreinir 53. gr. frumvarpsins að forseti Alþingis skuli kosinn með auknum meiri hluta þingmanna eða 60% þeirra, sem er mjög til bóta. Venjan er sú að stjórnarflokkarnir komi sér einfaldlega saman um það hver forseti Alþingis skuli vera. Þetta er hluti af ægivaldi meiri hlutans sem einkennir öll störf Alþingis og alla stjórnsýslu á Íslandi.

Við upphaf þessa kjörtímabils komumst við píratar reyndar að því að við gætum tilnefnt forseta sjálf án þess að spyrja kóng né prest. Við tilnefndum hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, ekki af ósætti við þann hv. þingmann sem að lokum varð virðulegur forseti heldur til að benda á að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafði þegar reynsluna og um hana hafði ríkt gríðarlega mikil sátt. Það fór eins og það fór og er það ágætt, enda hefur hinn virðulegi forseti sem var kjörinn reynst starfinu til sóma og vel það enda hefði sjálfsagt sami forseti verið kosinn ef frumvarpið sem um ræðir hefði orðið að stjórnarskrá þar sem þingstyrkur ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili er 60,3%. En það er samt sem áður ágætt að forseti Alþingis sé kjörinn af auknum meiri hluta. Hvorki sá virðulegi forseti sem nú situr né hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir ætti í neinum vandræðum með slíkan múr né reyndar nokkur annar góður og virðulegur forseti.

Enn eitt dæmið um nútímalegan raunveruleika sem ríkjandi stjórnarskrá tekur ekki á eru stjórnarskrárbrot. Væntanlega var það vegna þess að upprunalegir höfundar stjórnarskrárinnar töldu augljóst hvenær væri brotið á stjórnarskrá. Einnig er ekki víst að þeir hafi gert ráð fyrir þvílíku magni af lagasetningum. Vissulega voru þeir ekki í neinni aðstöðu til að sjá fyrir hversu fjölbreyttar hugmyndir ættu eftir að koma fram og þar með aukna hættu á stjórnarskrárbrotum.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er tekið á þessu með 63. gr. en það er greinin um svokallaða Lögréttu. Greinin er ekki löng og því skal ég lesa hana, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.

Þingnefnd eða fjórðungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Um Lögréttu skal nánar mælt fyrir í lögum.“

Nú minnist ég hagstofufrumvarpsins í sumar sem í mínum huga leikur enginn vafi á að hafi verið stjórnarskrárbrot en það hefði verið gott að geta fengið úr því skorið í eitt skipti fyrir öll áður en það varð að lögum. Í dag er engin leið til að athuga fyrir fram hvort lög standist stjórnarskrá. Fyrst þurfa þau að verða að lögum og brjóta á einhverjum með sannanlegum hætti áður en nokkur lögformleg leið er til að staðfesta lögmæti laga gagnvart stjórnarskrá fyrir Hæstarétti.

Það er óhugsandi að réttindi almennings sem tryggð eiga að vera í stjórnarskrá lifi af slík vinnubrögð til lengri tíma. Ef við ætlum að halda í þau mikilvægu réttindi sem núverandi stjórnarskrá er ætlað að tryggja þá þurfum við að uppfæra hana í takt við ógnir og tækifæri nútímans ellegar verðum við áfram föst í ferli sem storkar lýðræðinu, ógnar sífellt borgararéttindum og heldur okkur í máttlausum og úreltum útfærslum á mikilvægustu þáttum nútímasamfélags.