143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

veiting rekstrarleyfa fyrir veitingastaði.

97. mál
[12:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um endurskoðun laga og reglna er snúa að veitingu rekstrarleyfa fyrir veitingastaði. Ég og allnokkrir fleiri þingmenn erum meðflutningsmenn hv. þm. Bjarkar Vilhelmsdóttur sem mælti rétt í þessu fyrir tillögunni. Ég fagna því sérstaklega að hún skuli vera komin fram.

Hér mælti fyrir tillögunni þingmaður sem hefur gríðarlega reynslu sem kjörinn fulltrúi í Reykjavíkurborg af því að glíma við starfsemi af nákvæmlega þessu tagi. Það er löng saga, saga mikils vilja og saga sigra. Það er líka saga mótstöðu og saga hindrana, en þessi tillaga er enn eitt skrefið í átt að því að beita öllum aðferðum sem til eru til að stemma stigu við starfsemi af því tagi sem fjallað er um í tillögunni.

Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að taka til endurskoðunar lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem snúa að veitingu rekstrarleyfa fyrir veitingastaði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir rekstur veitingastaða sem gera út á nekt starfsfólks og aðgang að því í einkarými, svokallaðra kampavínsstaða.

Eins og kom fram í framsögu hv. þingmanns er um það að ræða að skýra enn betur í lögum en fyrir er þann vilja stjórnvalda að stemma stigu við starfsemi af þessu tagi. Við erum meðvituð um það og allir þeir sem glíma við þessa þætti samfélagsins, þessar skuggahliðar, að starfsemi af þessu tagi leitar alltaf nýrra leiða til að krækja fram hjá lagabókstafnum á hverjum tíma og leitar alltaf leiða til að krækja fram hjá reglugerðum, lögum, málsmeðferðarreglum eða hvað það er á hverjum tíma sem hindrar þann vilja að halda starfseminni uppi.

En það er ekki nóg að við séum með skýran lagabókstaf og skýran vilja löggjafans og stjórnvalda á hverjum tíma heldur þarf að fylgja þeim lagagrunni og vilja stjórnvalda eftir með aðgerðum. Það þarf fjármagn, fólk, upplýsingar og fræðslu og það þarf skilning á því hvað það er sem nákvæmlega endurspeglast í því að starfsemi af þessu tagi skuli vera til.

Hér er um að ræða hluta af miklu stærri mynd sem við stundum tölum um að endurspeglist í launamisrétti kynjanna, heimilisofbeldi, mansali, klámvæðingu og fleiri þeim þáttum sem eru birtingarmyndir kynjakerfis sem lítur á konur sem viðfangsefni.

Það er sem betur fer orðið þannig, og hefur orðið þannig síðustu ár, að það er að skapast þverpólitískur skilningur á mikilvægi þess að sporna við þessum þáttum. Þess vegna er fagnaðarefni að hér skuli vera flutningsmenn úr flestum flokkum og það kom fram í framsögu hv. flutningsmanns að einhverjir framsóknarmenn hefðu líka lýst áhuga á því að styðja málið þannig að greinilega er um að ræða stuðning úr öllum flokkum við markmið þessarar þingsályktunartillögu.

Það er ekki nóg að setja lög og reglur, það er ekki nóg að fylgja þeim eftir. Við þurfum líka vitundarvakningu og samfélagslegan skilning á því hvað hér er á ferðinni eins og áður kom fram. Það er til að mynda óþolandi að vændiskaupendur skuli njóta nafnleyndar eins og veruleikinn er, að staðinn skuli vörður um þann glæp með þeim hætti.

Sú tillaga hér sem er borin fram af hv. varaþingmanni Samfylkingarinnar, Björk Vilhelmsdóttur, er mikilvæg, góð og gagnleg. Mér finnst þessi tillaga eiga fullt erindi í þverpólitískan og uppbyggilegan farveg og mun leggja mitt af mörkum til þess að hún hljóti brautargengi, af veikum mætti stjórnarandstæðings. Í ljósi þess um hvað er hér fjallað hef ég samt miklar væntingar til þess að þetta fari í uppbyggilegan farveg.