143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

veiting rekstrarleyfa fyrir veitingastaði.

97. mál
[12:46]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Vilhelmsdóttur fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Það er mikil ánægja að sjá að hún virðist vera þverpólitísk miðað við þá flutningsmenn sem að henni standa og þvert á kyn sem er mjög gott.

Það er skýr vilji stjórnvalda að stemma stigu við starfsemi af því tagi sem við fjöllum um hér, svokallaða kampavínsklúbba, og því er óþolandi að hægt sé að fara í kringum kerfið og reka slíkra klúbba með því að kalla þá eitthvað annað eða nota einhvern annan gjaldmiðil. Í raun og veru eru þarna á ferðinni nektarstaðir og sá rekstur sem tengist þeim hefur mjög oft verið orðaður við vændi. Það er engum blöðum um það að fletta að það er rétt þrátt fyrir að menn reyni alltaf að neita fyrir það opinberlega.

Nú er staðan sú á árinu 2013 að þessir staðir og rekstur þeirra standa í miklum blóma. Það er algerlega óásættanlegt.

Ég endurtek að það er mjög mikilvægt og gott ef um þetta mál tekst þverpólitísk samstaða á Alþingi. Ég vil enn og aftur þakka flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu.