143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í þeim spurningum sem til mín er beint í þessari umræðu, sem ég vil annars þakka fyrir að fá tækifæri til að taka þátt í, felst ákveðinn grundvallarmisskilningur. Það er ekki verið að leggja sérstakan skatt á sjúklinga, heldur er lagt til að greitt sé ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. Viðmiðunargjaldið, gjaldið sem lagt er til grundvallar, er gjald sem allir greiða á sjúkrahótelum. Í lögum um þau gjöld segir að kostnaður sjúklings megi ekki vera meiri en sem nemur 20% af heildarkostnaði. Umræddar 1.200 kr. dekka ekki 1,5% af kostnaði við eina nótt á sjúkrahúsi þar sem reiknað er með að hún kosti að meðaltali um 80 þús. kr.

Hvað varðar spurninguna um hlutfall gjaldsins af heildartekjuöflun ríkissjóðs eða heildarkostnaði í heilbrigðiskerfinu kom hv. þingmaður inn á það og rakti tölur í því samhengi. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að legugjöld geti skilað um 200 millj. kr. á Landspítalanum og að önnur sjúkrahús geti mögulega innheimt um 90 milljónir til viðbótar. Í hlutfalli við heildarskatttekjur ríkissjóðs er þetta um 0,05%.

Í dag er það svo að fólki er víða mismunað í heilbrigðiskerfinu eftir eðli veikinda. Almennt komugjald á bráðamóttöku er 5.600 kr., það kostar 1 þús. kr. að fara á heilsugæslu og vottorð kosta frá 500 kr. upp í að greiða þurfi fyrir þann tíma sem það tekur lækni að fylla út slíkt skjal. Þá eru greiddar 3.800 kr. fyrir hverjar byrjaðar 20 mínútur. Fyrir komu á heilsugæslu utan dagvinnutíma er almennt gjald 2.600 kr. Fyrir vitjun til læknis á dagvinnutíma þarf að greiða 2.800 kr. og utan dagvinnutíma er það 1 þús. kr. hærra. Kona sem fer í krabbameinsleit greiðir frá 4–6 þús. kr.

Reglan er sú að þjónusta sem veitt er þegar sjúklingur er lagður inn er honum að kostnaðarlausu, það gildir um mat, lyf, skoðanir, rannsóknir, en þetta er ekki þannig þegar göngudeildir, heilsugæsla eða þjónusta á læknastofum eiga í hlut. Þá er tekið gjald. Allt er þetta samkvæmt reglugerð sem birt var 7. desember 2012 þegar síðasta ríkisstjórn var hér við völd. Þess má geta að þar er að auki kveðið á um kostnaðarþátttöku í kransæðaaðgerðum og keiluskurði, svo eitthvað sé nefnt.

Maður spyr sig hvort það megi skilja hv. málshefjanda svo að það þyki í lagi að láta hjartasjúkling eða konu með frumubreytingar í leghálsi greiða 8.700 kr. fyrir aðgerð en þegar lagt er til að taka upp sjúkrahótelsgjald, legugjald sem nemur 1.200 kr. á sólarhring og stendur varla undir þeim mat sem fram er reiddur meðan á dvölinni stendur, sé verulega vegið að grundvallarstoðum heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Það þarf varla að taka fram að ekki er ætlunin að öryrkjar eða aldraðir greiði þetta gjald að fullu frekar en flesta aðra þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Maður ætti kannski að fara inn í þessa umræðu og máta sjálfan sig inn í þessa mynd. Það er ekki svo að þeir sem eru lagðir inn á sjúkrahús séu endilega þeir sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Ég og hv. þingmaður getum báðir lent í því. Ég get svarað fyrir mitt leyti, mig munar ekki um það að borga 1.200 kr. fyrir hvern dag sem ég er á sjúkrahúsi. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé mér ekki sammála. Þingmenn ættu almennt að spyrja sig hvort þá muni um það.

Það eru aðrar leiðir til að koma betur til móts við þá sem höllustum fæti standa en sú að hlífa öllum. Þetta er mjög ómarkviss leið, að hlífa öllum við því að greiða legugjald, gjald sem ekki stendur einu sinni undir þeim mat sem fram er reiddur í morgunmat, í hádeginu, við kaffið og um kvöldið.

Þetta er ekki séríslensk hugmynd. Dvalargjaldið í Finnlandi er að hámarki 5.300 kr. á dag. Þar er greitt gjald þar til fjárhæðin er komin í um það bil 104 þús. kr. Eftir það lækkar gjaldið. Það sama gildir í öðrum löndum. Í Svíþjóð er heimilt að innheimta dvalargjöld á sjúkrastofnunum. Það er um 1.500 kr. fyrir 18 ára og eldri fyrir hvern dag.

Nú er spurt hvort ekki sé heppilegra að viðhalda sköttum eins og auðlegðarskatti eða veiðigjöldum. Ég segi varðandi veiðigjöldin: Þau eru há, þau hafa aldrei verið hærri. Þau verða áfram há á næsta ári. Auðlegðarskatturinn verður innheimtur á næsta ári, hann er í fjárlagafrumvarpinu. Skatturinn verður hins vegar ekki framlengdur, hann er tímabundinn samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar og ég styð þá ákvörðun fyrri ríkisstjórnar og hyggst ekki breyta henni. (Forseti hringir.) Við stöndum ekki frammi fyrir vali um að innheimta tiltekna skatta til að verja þessa þjónustu.