143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hefja þessa umræðu. Rétt er að minnast í byrjun á þá staðreynd að Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn síðustu sex árin og Vinstri grænir síðustu fjögur árin. Saman mynduðu þessir flokkar hina svokölluðu norrænu velferðarstjórn sem nánast gekk af heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga dauðu. Nú er hlaupið fram á sviðið og hrópað á nýja ríkisstjórn: Hvað á að gera, hvað á að gera? Af hverju forgangsraðið þið ekki í heilbrigðismálum?

Virðulegi forseti. Það er oft ágætt að fá nýja sýn þegar komið er að brunarústum. Hér biður stjórnarandstaðan um að heilsugæslan sé efld og meira fé sett í Landspítalann, eins og þessir fyrrverandi stjórnarflokkar hafi aldrei komið að þessu áður. Þetta er undarleg umræða því að það er eins og að inn í sögu þessara flokka vanti fjögur ár.

Það er verið að hrópa um að ríkisstjórnin ætli að afsala sér tekjum með því að framlengja ekki ákvæðið um auðlegðarskattinn sem ríkisstjórnin sjálf tók ákvörðun um að hafa tímabundinn eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir. Inn í veiðigjaldaumræðuna ætla ég ekki að fara að öðru leyti en því að það er ekki hægt að ná í tekjur þegar grunnurinn að tekjuöfluninni er ekki til staðar eins og kom í ljós með veiðileyfagjöldin. Það var ekki hægt að innheimta þau gjöld sem fyrrverandi ríkisstjórn ætlaði að ná inn þar. Það hefur margoft komið í ljós en umræðunni er snúið á hvolf og hún afbökuð.

Virðulegi forseti. Ég tel að við þingmenn eigum að taka höndum saman hvar í flokki sem við stöndum, mynda þjóðarsátt um heilbrigðiskerfið okkar því eins og ég hef sagt svo oft áður þá getur engin þjóð verið án öflugs heilbrigðiskerfis, sérstaklega ekki (Forseti hringir.) eyþjóð. Saman skulum við ganga í þetta verk, sameinuð (Forseti hringir.) en ekki sundruð.