143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:20]
Horfa

Björk Vilhelmsdóttir (Sf):

Frú forseti. Í þessari umræðu óska ég eftir því að þingmenn skoði heildarkostnað sjúklinga áður en við leggjum á ný gjöld, sjúklingaskatta. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu eftir góða rannsókn sem Krabbameinsfélagið stóð fyrir um hvað kostnaður er orðinn gríðarlega hár á Íslandi. Margir bera ábyrgð á því. Þetta er þróun sem hefur versnað og sérstaklega eftir hrun á meðan lífskjör fólks hafa stórversnað.

Ég segi eins og aðrir þingmenn að 10 þús. kr. eru heilmikill peningur, sérstaklega þegar fólk hefur borgað talsverðar fjárhæðir í komugjöld inn á sjúkrahús, inn á heilsugæsluna og til sérfræðinga. Fólk hefur verið á lyfjum vegna ýmiss konar veikinda og það er oft undanfari sjúkrahúsvistar. Mest er fólk lagt inn með langvarandi sjúkdóma, t.d. gigtarsjúkdóma, þar sem fólk hefur verið á miklum lyfjum og þarf að borga að minnsta kosti 69 þús. kr. áður en lyfin verða frí. Sá kostnaður sem sjaldan er talað um er sjúkraþjálfunarkostnaður. Sjúklingar sem ekki eru lífeyrisþegar borga fullt gjald fyrir fyrstu 30 skiptin og þá erum við að tala um ríflega 100 þús. kr. Þessi sjúkraþjálfunarkostnaður er mjög íþyngjandi. Þetta getur allt verið undanfari sjúkrahúsvistar og hver einasti kostnaður skiptir máli. Þegar ný gjöld eru sett á verður maður hræddur um að þau muni hækka eins og dæmin sanna.