143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:29]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hefja máls á þessu og þakka þinginu í heild þann áhuga sem það sýnir þessu máli. Heilbrigðisþjónusta er grafalvarlegt mál. Varðandi legugjöldin sem mest er deilt um verð ég að segja að það jákvæða við þau er að þau hafa þó vakið menn til umhugsunar um gjaldskrána yfirleitt. Eins og fram hefur komið hérna er það mjög flókin flóra og ótrúlega misjöfn.

Ég kíkti aðeins á þessa flóknu skrá. Þar rekur maður sig strax á tölur upp á 4–5 þús. kr. fyrir að mæta til skoðunar hjá barnalækni eða vegna eftirlits með krabbameini. Þetta er verðug umræða og málshefjandi veit að það er nefnd hérna, eins og hefur komið fram, sem er að skoða þetta mál í heild sinni sem byggir á því að reyna að jafna þessa greiðsluþátttöku og gera hana sanngjarnari. Að blanda veiðileyfagjöldum inn í þessi mál, eins og ítrekað hefur verið gert hérna, finnst mér vægast sagt óviðeigandi sem og að tala um að stórútgerðarmenn og útgerðarmenn eigi að sjá sóma sinn í því að borga meira til heilbrigðisþjónustunnar. Það eru ekki mörg sjúkrahús á landinu sem ekki eru með einhver tæki sem útgerðarmenn hafa gefið. (Forseti hringir.)

Ég bara bið fólk um að (Forseti hringir.) hafa þetta á réttum nótum. Tekjur ríkissjóðs, (Forseti hringir.) 580–590 milljarðar — (Forseti hringir.) veiðigjöldin eru þar 10–20 milljarðar, (Forseti hringir.) 10 milljarða veiðigjald og svo skattar.