143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur dregið margt mikilvægt fram sem þarf að hafa í huga þegar rætt er um gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni, m.a. það að gjöld eru mjög víða greidd og margir sitja uppi með töluvert mikinn kostnað vegna þess að þeir eru ekki lagðir inn á sjúkrahús þar sem öll kostnaðarhlutdeild fellur niður. Ef menn vilja bera sig saman við Norðurlöndin hef ég dregið það fram að einmitt á Norðurlöndum eru greidd gjöld af þeim toga sem hér er rætt um. Þetta eru gjöld fyrir veitta þjónustu. Hlutdeild sjúklinga hefur á undanförnum árum vaxið, í tíð Samfylkingarinnar úr um 17,5% af kerfinu upp í 19,6%. Það eru einkum samfylkingarmenn sem á sama tíma kvarta undan því að þessi þróun skuli hafa átt sér stað. Það hefur ekki verið mikið gert í því að undanförnu en gjaldið sem hér er um rætt er ekki ósanngjarnt þegar við skoðum gjaldtöku almennt í heilbrigðiskerfinu. Þetta er gjald fyrir veitta þjónustu. Auðvitað munar um hverja viðbót sem þar kemur inn í myndina, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en mér finnst umræðan hér í dag hafa verið dálítið prinsipplaus.

Er verið að verja það kerfi að sumir greiði mikið en aðrir ekkert? Er það kerfið sem menn vilja verja hér (Gripið fram í: Já.) eða eigum við að reyna að ræða þetta í víðara samhengi? Sjá menn það ekki í hendi sér að það er ekki þörf fyrir að verja alla til þess að ná til sumra gegn því að greiða gjald fyrir lágmarksþjónustu á sjúkrahúsi, gjald sem nemur ekki einu sinni kostnaði við að reiða þar fram mat? Menn hljóta að sjá að það er ekki óeðlilegt að taka málið í þetta stærra samhengi hlutanna.

Þegar skattar og Norðurlöndin eru nefnd í sömu andrá er yfirleitt það sama sem býr undir, það svæði er tekið til viðmiðunar þar sem skattar eru hæstir (Forseti hringir.) í heiminum og sagt: Við erum ekki enn komin þangað.