143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[14:44]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu.

Fá mál eru betur þekkt hjá almenningi vegna þjóðaratkvæðagreiðslna og þeirra miklu deilna sem voru um þetta mál á sínum tíma. Vegna stærðar málsins flutti fyrrverandi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson þetta þingmál tvisvar, en það náði ekki fram að ganga.

Við höfum á undanförnum árum hafið rannsóknir á ýmsum málum. Ég tel mikilvægt að við förum þá leið sem hér er lögð til og komumst til botns í þessu máli og ég vona, ef þetta mál nær fram að ganga, að við gerum það með sama hugarfari og tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að við séum ekki að fara í vegferð eins og þessa til neins annars en að upplýsa hvað fór miður, og þá hvað fór vel, til þess að læra af því. (ÖS: Þú ert bara hel…)

Ég held að við höfum stigið ákveðin skref en við þurfum að læra af þeim. Ég tek skýrt fram að ég tel mjög mikilvægt að í meðförum þeirrar nefndar sem fer með málið verði þannig frá því gengið að við köllum ekki á eins mikil ríkisútgjöld og hafa orðið út af rannsóknarnefndunum fram til þessa. Ég veit ekki hvort menn átta sig á að kostnaðurinn við rannsóknarnefndirnar um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna er kominn upp í 750 milljónir, þessar tvær rannsóknarnefndir. Ástæðan fyrir því að þetta er svona mikið er fyrst og fremst sú að við hv. þingmenn höfum ekki unnið vinnuna okkar. Það hefur ekki verið skilgreint nógu vel hvert hlutverkið á að vera, hvað menn eru að rannsaka og það er ekki skýrt hver ber fjárhagslega ábyrgð á vinnu viðkomandi rannsóknarnefnda.

Það er eðlilegasta mál í heimi að menn rannsaki einstök mál og málefni, ég tala nú ekki um mál af þessari stærð, en við eigum ekki að kalla á mörg hundruð milljóna króna kostnað og sitja jafnvel uppi með skýrslur sem skila ekki miklu.

Virðulegi forseti. Hafi einhvern tímann verið tilefni til að fara ofan í mál er það þetta mál sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði upp með á sínum tíma og flutti tvisvar, sérstaklega í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstóls sem öllum er kunn. Af þeirri ástæðu settum við, flutningsmenn tillögunnar, í tillöguna greinargerðina sem var unnin á sínum tíma. Hún er mjög ítarleg og fullkomlega útilokað fyrir mig að fara í hana í þessari stuttu ræðu.

Í ofanálag liggur fyrir ágætisbók um Icesave-málið og ýmis önnur gögn, fyrir utan það að auðvelt er að ná í alla þá aðila sem að þessu máli koma og fá nauðsynlegar upplýsingar til að fá heildarmynd af málinu.

Ég var fyrst kosinn á þing 2003 en kom inn sem varaþingmaður árin 1998 og 1999 og verð að viðurkenna að ég man ekki eftir neinu máli sem var líkt þessu, svo ég tali frá sjálfum mér. Ég man sérstaklega eftir því þegar núverandi hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá hv. þingmaður, spurði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra hvort eitthvað væri í gangi með Icesave-málið, hvort hugsanlega væri verið að vinna að samningum eða eitthvað væri á leiðinni. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra kvað það af og frá. Tveim dögum síðar var búið að skrifa undir samninginn sem skuldbatt þjóðina eins og við þekkjum öll. Það er með miklum ólíkindum.

Ég man líka þegar ég sat á sameiginlegum nefndarfundi hv. fjárlaganefndar og hv. viðskiptanefndar sem þá hét þar sem við fengum kynningu á málinu. Þegar við báðum um að fá að sjá samninginn sem átti að skuldbinda þjóðina, eins og raun bar vitni, var okkur sagt að við gætum ekki fengið að sjá hann. Þegar við gengum eftir því hvort það gæti virkilega verið, og við vildum eðli máls samkvæmt fá að sjá hann, var okkur sagt að hugsanlega gæti Ríkisendurskoðun fengið að sjá samninginn og túlka hann síðan ofan í hv. þingmenn.

Reyndar fór það svo að samningurinn fór á internetið áður en hv. þingmenn sem áttu að taka afstöðu til málsins fengu að sjá hann.

Ég held að í þessu máli, eins og öllum öðrum, verðum við að ræða það málefnalega og rólega en við verðum að komast til botns í því hvað var þarna á ferðinni, fyrst og fremst og eingöngu til þess að læra af því. Ef einhverjir velkjast í vafa um það hef ég ekki verið fylgjandi landsdómi og er það ekki heldur nú.

Þingið hefur eftirlitshlutverk. Þingi ber að fara yfir mál og skoða þau. Við eigum að skoða miklu smærri mál en þessi. Það væri mjög sérstakt, virðulegi forseti, ef við tækjum mál sem við viljum rannsaka og styngjum því undir stól. Við erum búin að breyta þingskapalögum og koma með sérstaka nefnd til að framfylgja eftirlitshlutverki þingsins betur, þá er ég að vísa til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Fá mál sem þingið hefur þurft að taka afstöðu til á undanförnum árum eru stærri, alveg sama hvaða mælikvarða við notum. Það var ekki bara þingið, það var líka þjóðin því að þetta snerti auðvitað alla.

Ég ætla ekki að fella neina dóma hér, virðulegi forseti, um framgöngu eins eða neins í þessu. Ég tel hins vegar að það sé afskaplega skynsamlegt að við samþykkjum þetta mál og setjum það í farveg en þó þannig, svo ég ítreki það, að við vinnum vinnuna okkar betur en við höfum gert fram til þessa þegar við höfum sett rannsóknarnefndir af stað og fengið bakreikninga upp á hundruð milljóna fyrir ríkissjóð. Í honum eru auðvitað peningar okkar allra, skattgreiðenda.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.