143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega miklar fréttir því eins og allir vita er hv. þm. Össur Skarphéðinsson duglegur að hlusta og hann hefur aldrei heyrt aumari framsögu en núna. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að bæta í hana. Ég held að þegar hann var að útskýra þann þátt sem ég vísa í hafi hann komið með afskaplega góð rök fyrir því að það yrði að skoða þetta mál. Hann sagði að ef menn hefðu einhverja þekkingu á alþjóðamálum vissu þeir það, ráðherrar, að það væri oft verið að semja um einhverja samninga, eins og t.d. Icesave, og þeir vissu bara ekkert af því að það væri eiginlega alveg búið að loka þessu og að tveir dagar væru mjög langur tími.

Virðulegi forseti. Þessi hv. þingmaður var í hæstv. ríkisstjórn. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og fyrir að vekja athygli á því hversu nauðsynlegt er að rannsaka þetta mál og fá að vita nákvæmlega hvað var í gangi.

Hér er greinargerð, álitsgerð, þar sem er farið yfir alla efnisþætti eins og við höfum rætt hvað eftir annað. Ef hv. þingmaður vill að ég lesi upp úr henni og fari yfir þessa þætti getum við auðvitað gert það. (Forseti hringir.) Ég næ því bara ekki á þessum 15 mínútum.