143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[14:59]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi augljóslega mikinn áhuga á því að rannsaka þetta mál. Ég held að þótt hann tali með þessum hætti þá heyrum við sem hlustum hér á hann að hann hefur mikinn áhuga á að rannsaka það. Ef hann vill bæta einhverju við tillöguna í meðförum nefndarinnar er það alveg kjörið.

Ég held að sé afskaplega mikilvægt að við förum í alla þessa þætti og sjálfsagt að bæta því sem hv. þingmaður nefndi áðan. Það er besta mál. Og ég held að samskipti okkar við Evrópusambandið t.d. á öllum stigum — það væri gott að við mundum vekja athygli á þeim. Ég held að það væri alveg sérstaklega gott, virðulegi forseti, í ljósi umræðna ýmissa hv. þingmanna um eðli þess bandalags og vinaþel þeirra þjóða sem þar eru og stýra málum. Ég held að það væri alveg bara kjörið og fyrir alla muni, virðulegi forseti, ættum við að upplýsa það. Þannig að ég heyri mikinn samhljóm hér á milli mín og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.