143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Sú undarlega staða kom upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að í henni var haldinn opinn fundur þar sem þeir sem höfðu sætt ámæli í skýrslunni um Íbúðalánasjóð mættu og báru af sér blak. Nefndin breyttist í nokkuð sem í mínum huga eru allt að því réttarhöld. Ég held að það sé mjög brýnt að við leysum úr þessu með því að koma á mjög skýrum reglum um andmælarétt, að menn geti svarað og að andmæli þeirra verði birt með skýrslunni.

Varðandi kostnaðinn held ég að nefndin þurfi að fara vel í gegnum það hvernig hún getur haldið kostnaðinum í böndum og samt náð því markmiði að rannsaka vendilega það sem um er að ræða. Hér er um að ræða undirskrift undir samning í tvígang eða þrígang sem hafði verulega stóra skuldbindingu fyrir íslenskt þjóðarbú sem eftir á að hyggja og líka fyrir fram var vitað að það gæti ekki risið undir.