143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Landsmenn eiga rétt á því að vita um ákvarðanir stjórnvalda. Ef við viljum raunverulega að stjórnmálamenn séu heiðarlegri þarf að auka gegnsæi um ákvarðanatöku stjórnmálamanna, stjórnvalda og annarra þeirra sem fara með almannavald. Þannig að ég fagna því að það eigi að skoða ákvarðanir stjórnvalda í þessu gríðarlega stóra máli.

Þessum málum á síðan að vísa til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Til að landsmenn skilji þetta þá er formaður nefndarinnar hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann hefur dagskrárvald í þeirri nefnd. Hann getur þar af leiðandi sagt: Ég tek ekki málið á dagskrá. Aftur á móti ef hann þarf að bregða sér frá stígur inn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem gæti tekið málið á dagskrá. Það er mikilvægt að horfa til þess að dagskrárvald formannanna er algjört og þeir geta stjórnað því hvaða mál fara eða fara ekki á dagskrá.