143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:07]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu um rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu, langar mig að gera að umtalsefni það sem ég vil ekki að gerist í framhaldi af svona rannsókn eins og hefur gerst hér í þjóðfélaginu nýlega. Það er að landsdómur verði kallaður saman. Ég vil fyrir mitt leyti koma því til leiðar — ég þarf að undirbúa mig betur í því og læra betur á það að verða þingmaður — en ég vil mjög gjarnan koma því til leiðar á hinu ágæta háa Alþingi að landsdómur verði einfaldlega lagður niður. Rök mín eru þessi:

Ákæruvald fyrir landsdómi er í höndum Alþingis. Það eru sem sagt alþingismenn sem ráða því hvort ráðherra skuli ákærður fyrir landsdómi, ekki sjálfstæður, óháður saksóknari eins og tíðkast í venjulegum sakamálum. Að sjálfsögðu eykur þetta hættuna á að ákæra sé byggð á ómálefnalegum grunni og snúist upp í pólitísk hrossakaup. Sömuleiðis kýs Alþingi meiri hluta dómara við dómstólinn eða átta af 15 í hlutfallskosningu og það veikir að sjálfsögðu sjálfstæði dómstólsins og traust almennings til hans.

Þá má benda á í sambandi við landsdóm að til er skoðanakönnun frá MMR frá því í október 2011 þar sem mælt er traust almennings til ákveðinna stofnana samfélagsins, þar á meðal dómstólanna. Þá sögðust 38% bera mikið traust til Hæstaréttar, 34% til héraðsdómstólanna og 30% til dómskerfisins í heild. En landsdómur kom langverst út úr könnuninni, aðeins 16% sögðust bera mikið traust til hans og 40% sögðust bera lítið traust til hans.

Að þessu sögðu vil ég árétta þá skoðun mína að landsdómur eigi að heyra sögunni til. Hann er ekki nútímalegt apparat að mínu viti og á að leggja niður. Allt regluverkið í kringum dómstólinn er úr sér gengið og úr takti við þróun nútíma sakamálaréttarfars og mannréttindareglna.