143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekkert að skammast mín fyrir það að hafa staðið í lappirnar fyrir hagsmuni Íslands á þeim tíma þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins létu lemja sig niður á hnén á erlendum fundum, kiknuðu í hnjánum tveimur sinnum, bara svo það sé algjörlega ljóst. Það olli á þeim tíma nánast stjórnarslitum og hefði kannski verið betra að þau hefðu orðið þá, en það var ekki hv. þingmanni að þakka, það var gráglettni örlaganna sem greip inn í þá.

Ég hef ekkert að skammast mín fyrir í þeim efnum og ekki heldur þegar kemur að landsdómi, ég hef alltaf verið samkvæmur sjálfum mér þar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég hef ekkert á móti þessari rannsókn. Allt sem síðasta ríkisstjórn gerði, sagði og samdi um, stundum með hjálp Sjálfstæðisflokksins, þolir dagsins ljós. Ef menn ætla hins vegar að fara í þennan leik skulu þeir hafa allt undir. Ég segi það bara, herra forseti, svo hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson heyri: Ég taldi að landsdómsleikurinn væri frá. Ég tók þátt í honum með því að vera á móti honum hverja einustu sekúndu þess hildarleiks og ég er það enn.

Ég tel ekki að það eigi að leiða íslenskt samfélag aftur inn í þá hringekju en það er alveg ljóst að það vakir fyrir hv. þingmanni. Ég segi enn og aftur að þetta er ekkert annað en hefndarleiðangur Sjálfstæðisflokksins gegn hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Hv. þm. Guðlaugur Þór reyndi að gera sér hæðni úr því að ég væri einhver sérstakur bjargvættur Íslands. Ég hef aldrei talað um sjálfan mig með þeim hætti. (Gripið fram í: Nehei!) Ef það er einhver sem hv. þingmaður á að þakka er það hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Sennilega á enginn annar jafn mikinn þátt í því að hafa dregið Ísland upp úr því forardíki sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi það eftir í.