143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að það sé hv. þingmaður sem hefur ekki lesið greinargerðina með tillögunni út í gegn. Það er alveg ljóst að hverjum hún beinist þegar maður les hana í gegn og hvað það er sem verið er að ræða um þar. Það eru tilteknir kaflar úr þeirri samningasögu. Það blasir við öllum sem þekkja málið að tveir mikilvægir fyrstu kaflarnir í tillögunni eru ekki nefndir og það eru fyrstu samningarnir sem voru gerðir, því að auðvitað voru þetta samningar sem voru gerðir við Breta og Hollendinga — jæja, að vísu ekki við Breta vegna þess að komið var í veg fyrir það. En það var þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gekk frá samningi við Hollendinga að því marki að sá ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem frá því gekk setti stafina sína undir hann. Er talað um það þarna? Er talað um seinni samningana? Nei, þess í stað er endurbirt gömul slitin tillaga sem sett var fram í hita leiksins þegar málið gekk yfir á sínum tíma og öllum er alveg ljóst hvað fyrir mönnum vakir.

Svo get ég upplýst hv. þingmann, það er kannski vegna þess að ég er tekinn að hníga að aldri og minni mitt að reskjast, en tilvitnun hv. þingmanns í mig um veisluhöld minnist ég aðeins nokkrum árum síðar þegar svo vildi til að sá ráðherra sem í því samhengi var nefndur hafði valið málflutningsmann og málflutningsteymi, m.a. með fulltrúum grasrótarhópanna, sem unnu málið. Þá lýsti utanríkisráðherrann því yfir að tilefni væri fyrir íslensku þjóðina að efna til veislu.