143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:34]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan, ekki er verið að undanskilja stjórnvaldsaðgerðir eða samskipti sem áttu sér stað í tíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þegar hann var í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, svo að það sé alveg ljóst.

Ég held að það sé nefnilega mikilvægt fyrir okkur að allar þessar upplýsingar komi hér fram og ég held að það sé t.d. mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig það gat gerst að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lagði fram í tvígang samninga sem nutu ekki meirihlutastuðnings á þingi. Hluti af þingmönnum stjórnarflokkanna studdi ekki þá samninga sem gerðir voru í nafni ríkisstjórnar Íslands. Það þarf að draga þetta fram.

Það þarf líka að velta því fyrir sér hvernig það getur gerst að Alþingi hunsar í tvígang mikinn vilja meiri hluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri vert að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvernig honum leið þegar hann tók þá ákvörðun að leggjast gegn því að samningarnir yrðu lagðir undir þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og hv. þm. Pétur Blöndal gerði að minnsta kosti í tvígang tillögu um.