143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það er ekki vanalegt að þingmannamál fái svona góða umfjöllun. Að langstærstum hluta var hún málefnaleg og góð, það verður að segjast eins og er. Mér finnst viðbrögð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar ýta undir mikilvægi þess að rannsaka og klára þetta mál því að bæði það sem hv. þingmaður sagði og allt hans fas ítrekar mikilvægi þess að fara vel yfir málið. Ég vil af þessum sökum lesa byrjunina á tillögunni sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem rannsaka skuli embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Skal nefndin skipuð þremur sérfræðingum á þeim sviðum sem rannsóknin nær til.

Rannsóknarnefndin skal leggja mat á hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenskra ríkið og íslensku þjóðina og eftir atvikum leggja mat á hverjir bera á þeim ábyrgð.“

Virðulegi forseti. Hér er ekkert undanskilið, enginn ráðherra og enginn embættismaður. Þetta sýnir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ekki lesið tillöguna. Hann hélt því fram að hér væri einungis verið að taka fyrir afmarkaða ríkisstjórn og afmarkaða stjórnmálamenn.

Hv. þingmaður sagði að ég hefði verið að ýja og dylgja gagnvart einum einstökum manni. Ég skal bara endurtaka það sem ég sagði, ég var að vísa í upplifun mína af þessu máli og mér finnst algjört markmið að þetta gerist aldrei aftur. Hæstv. núverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, spurði hér hvort eitthvað væri í gangi í þessu máli 3. júní 2009. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra sagði að ekkert væri í gangi. Ég man ekki hvernig hann orðaði það en það var alveg skýrt að það væri ekkert í gangi og því síður einhverjir samningar á leiðinni. 5. júní, tveim dögum seinna, var búið að skrifa undir þessa risasamninga og hæstv. forsætisráðherra sagði meira að segja seinna að hún hefði verið búin að lesa samningana þegar hún samþykkti þá og það ætti að klára þá sem allra fyrst, á nokkrum dögum. Þetta er það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallar að ég sé að ýja og dylgja og það gagnvart þessum fyrrverandi hæstv. ráðherra. Ég er ekkert að ýja eða dylgja neitt. Annaðhvort sagði hæstv. þáverandi ráðherra satt eða ósatt og alveg sama hvort er er það mjög merkilegt.

Það er auðvitað merkilegt í þessu risamáli ef samninganefnd á hans vegum upplýsti hann ekki um hvað var í gangi, stórmerkilegt. Það er líka stórmerkilegt að menn vildu klára þessa risasamninga með þessu mikla hraði. Hver og einn getur skoðað hvað var sagt, bæði þá og nú.

Ég vísa algjörlega á bug, eins og allir sem hér hafa komið, aðdróttunum um að hér liggi undir að fara eigi í eitthvert nýtt landsdómsmál. Ég held að hver einasti hv. þingmaður sem hér hefur talað hafi farið yfir það hversu fráleitt það er. Hér er ítrekað að auðvitað er ekkert slíkt á ferðinni og vandséð hvernig menn geta fengið þá hugmynd. Ég held að það sé bara æskilegt að allt það sem snýr að þessu máli eða öðrum haustið 2008 verði skoðað sérstaklega, þá sérstaklega framganga Evrópusambandsins.

Hv. þm. Óli Björn Kárason fór aðeins víðar í þetta og vísaði í sjónarmið Ásgeirs Jónssonar hagfræðings sem er búinn að fara yfir það sem hann telur mistök síðustu ríkisstjórnar. Það er í fyrsta lagi landsbankaskuldabréfið, síðan afhending bankanna til erlendu kröfuhafanna og loks það að neyðarlögin voru látin gilda fyrir Íbúðalánasjóð og sparisjóðina. Nú vona ég að það sem snýr að þriðja þættinum, þ.e. sparisjóðunum, verði upplýst í skýrslunni um sparisjóðina. Ég tók það mál upp hvað eftir annað. Ég er búinn að flytja fjöldann allan af ræðum, hef beðið um sérstakar umræður og skrifað greinar um þennan framgang. Það er furðulegt, og er vonandi verið að skoða það núna, hvernig það mátti vera að risafjármálastofnunum eins og SpKef og BYR var leyft að starfa án þess að uppfylla lögbundin skilyrði. Það er algjörlega furðulegt. Reikningurinn upp á 25 milljarða og jafnvel meira var síðan sendur til skattgreiðenda. Nú liggur alveg fyrir að ég varaði við þessu hvað eftir annað. Því var skrökvað að ég hefði rangt fyrir mér um að lög hefðu verið brotin. Það liggur alveg fyrir og ég á það skjalfest að lög voru brotin. Þeir uppfylltu ekki skilyrði og það er fullkomlega óskiljanlegt að eftirlitsaðilinn og viðkomandi ráðuneyti sem hélt utan um þetta hafi látið þetta viðgangast. Eiginfjárhlutfall banka var mjög hátt hjá öllum nema þessum bönkum og það voru ekki lagaskilyrði til að þeir störfuðu með þessum hætti. Ég vona að það verði dregið fram í dagsljósið af hverju það var.

Afhending banka til erlendu kröfuhafanna, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason vísaði hér til, var þvert á það sem var lagt upp með haustið 2008 með neyðarlögunum og var gert vegna þess að þeir aðilar sem ríkisstjórnin ráðfærði sig við töldu mikilvægt að hin svokallaða sænska leið yrði farin, m.a. vegna þess að það væri mjög mikilvægt að ríkið stýrði skuldaniðurfærslu fyrir fyrirtæki og almenning. Rökin sem var komið með voru þau, sem er alveg rétt, að ríkið þurfti að leggja fram minni fjármuni með því að fara þá leið sem farin var. Bara svo menn viti það er þetta ólöglegt núna, þ.e. þrotabú mega ekki eiga banka. Það var líka ólöglegt þá en þá var gerð undantekning. Þetta er ekki hefðbundin eignaraðild erlendra aðila. Þrotabú mega bara ekki eiga banka. Það eru gerðar strangar kröfur um eigendur fjármálastofnana og það var gerð undantekning í þessu tilfelli. Ég held að allir sjái af hverju við viljum ekki að þrotabú eigi fjármálastofnanir.

Kannski er stærsti kostnaðurinn í Icesave-málinu þegar yfir lýkur landsbankaskuldabréfið og það að menn skyldu fara þessa leið. Það verður væntanlega ekki skoðað nema menn breyti tillögunni sérstaklega sem auðvitað væri skynsamlegt. Það var mjög lítið rætt um þetta, m.a. vegna fyrirferðar Icesave-málsins. Okkur gafst lítið tóm til að ræða í þinginu þessa tvo gjörninga sem skipta íslenska þjóð gríðarlega miklu máli. Sumpart bendir þessi umræða til þess að við séum ekki komin á þann stað að við getum skoðað einstaka þætti, dregið fram staðreyndir, rætt þær málefnalega og sett saman rannsóknarnefndir sem vinna að því að draga fram ákveðna hluti. Vonandi kemur sú stund og þegar við komumst þangað, að geta rætt það með hófstilltari og málefnalegri hætti, komumst við á þann stað sem við viljum. Allir hv. þingmenn nema einn hafa rætt á þeim nótum um þessi mál og ég vil trúa því að við séum á réttri leið. Ég vil trúa því að umræðan um hluti eins og þessa sé á réttri leið og það sé vilji allra að við höfum virkt eftirlit þingsins og að við höfum þá tæki eins og rannsóknarnefndir sem geta skoðað einstaka þætti til að við getum séð hvað fór miður og til að geta lært af því. Mistökin verða miklu dýrari ef við lærum ekki af þeim. Langdýrustu mistökin eru þau sem við lærum ekki af. Ég er þess sannfærður að í hjarta sínu eru allir hv. þingmenn sammála um að við viljum aldrei sjá aftur Icesave-mál. Við viljum aldrei aftur sjá atganginn eins og hann var hér í þinginu, við viljum aldrei sjá aftur landsdómsmál og ég er alveg sannfærður um, eða vil trúa því, að allir þeir þingmenn sem eru á þingi, að ég tali ekki um þá sem tóku þátt í því áður, vilja ekki sjá slíkt aftur.

Þetta mál er meðal annars lagt fram til þess að draga fram staðreyndir mála til að við getum lært af þeim. Við viljum aldrei aftur sjá Icesave, við viljum aldrei aftur sjá landsdóm.