143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[16:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf gott að geta lært af málum. Mér sýnist hv. 1. framsögumaður og flutningsmaður þessa máls hafa lært töluvert af þessari umræðu, a.m.k. í lokaræðu hans þegar hann sleppti því að vera með sömu dylgjur og hann hóf ræðu sína á gegn einum nafngreindum hv. þingmanni sem hann hafði að vísu ekki bein í hnjánum til að segja beinlínis að hefði logið að þinginu heldur ýjaði hann og dylgjaði og slíkt eiga menn ekki að gera hér

Einnig hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komið hingað upp. Það er fínt að þeir hafi allir sagt það algerlega skýrt að þeir séu ekki í hefndarleiðangri. Ég hef hins vegar verið í þessum sölum árum saman og man þau orð sem féllu bæði í þingsal og utan þingsalar. Ég man heiftina í þessu máli og ég man hvernig menn töluðu á þeim tíma. Það er því fullkomlega eðlilegt, sérstaklega þegar menn lesa greinargerðina, að draga þá ályktun að hér sé einungis um hefndarleiðangur að ræða.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir talaði um það sem hún vildi rannsaka sérstaklega, rétt eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom og ræddi þau rannsóknarefni sem hann vildi en þau er óvart ekki að finna í tillögunni. Menn tala hér um að allt sé undir, líka samningarnir tveir sem gerðir voru í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar af ráðherra Sjálfstæðisflokksins án þess að nokkur annar ráðherra vissi af þeim. Þau segja það núna að sjálfsagt sé að rannsaka þá líka. Gott og vel, en þeir eru óvart ekki undir í greinargerðinni sem skýrir tillöguna. Þar eru nefndir tveir dagsettir samningar og það er algerlega ljóst hvað vakir fyrir 1. flutningsmanni. Menn eiga bara að segja það opið og það geri ég. Ég tala ærlega í þessu máli en það er gott að hv. þingmaður hefur lært aðeins mannasiði af þessari umræðu.