143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef lært af þessari umræðu er það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlustar ekki á það sem neinn segir. Hann les ekki gögnin og svo leggur hann bara út frá því sem hann heldur. Hann kom og sagði að ég hefði sleppt því að ýja og dylgja um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, en ef ég gerði það í fyrri ræðunni þá gerði ég það í seinni ræðunni líka. Ég fór nákvæmlega eins yfir málið. Hv. þingmaður hlustar ekkert. Hann lifir í einhverjum draumaheimi, einhverju sem hann telur vera og lýsingar hans á fortíðinni eru sama marki brenndar. Svo kemur hv. þingmaður og segir að menn hafi komið með einhverja nýja hluti, að allt væri undir. Hv. þingmaður hefur ekki lesið tillöguna. Ég las beint upp úr tillögunni hérna áðan. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlustaði ekkert. Ég veit ekki hvar hann er staddur en hann er ekki staddur í þessari umræðu, hann er ekki að tala um þessa tillögu og hann er ekki í andsvari við mig. Hann er í andsvari við sjálfan sig.

Það er pínlegt að maður þurfi að bera af sér hrósið. Ég held að hann hafi verið að hrósa mér. Ég held að hann hafi hrósað því að ég hafi ekki verið að ýja og dylgja. Það gengur ekki. Ég talaði um það sama og fór nákvæmlega yfir það eins og ég gerði í fyrri ræðunni, þannig að ef ég var að ýja og dylgja í fyrri ræðunni var ég að því núna áðan. Ég veit ekki hvað athyglisspan hv. þingmanns er mikið en ég hvet hann til að reyna að fylgjast með — þetta eru tvær mínútur, hin ræðan var tíu mínútur, þetta er ekkert rosalega langt. Og það er frábær hugmynd að lesa tillöguna fyrst, koma svo og tala um hana.