143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.

29. mál
[16:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ekki ætla ég að lengja þessa umræðu. Ég vil bara koma hér til að lýsa eindregnum stuðningi mínum við þá ágætu tillögu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur flutt framsögu fyrir. Það kom mér svolítið á óvart að hlýða á mál hennar og uppgötva að Íslendingar væru eftirbátar annarra þjóða sem við höfum yfirleitt borið okkur saman við. Við höfum kappkostað það, allir hér á Alþingi, að setja Ísland fremst í röð þeirra þjóða sem sinna og hlúa að mannréttindum og hér í gegnum a.m.k. mína tíð á Alþingi Íslendinga hefur náðst feikilega merkileg samstaða um hvert framfaraskrefið á fætur öðru varðandi réttindi hinsegin fólks.

Sjálfur er ég stoltur af því að hafa á sínum tíma setið í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar sem braut í blað með margvíslegum réttarbótum á sviði réttinda hinsegin fólks. Þær réttarbætur leiddu til þess að á sínum tíma var Ísland með löggjöf sem gekk lengst hvað varðar þessi réttindi. Þar eigum við að vera; við eigum að vera í fylkingarbrjósti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að auka fræðslu varðandi þessi mál. Auðvitað gleður það mann að sjá þá breytingu sem orðið hefur í viðhorfum samfélagsins á síðustu áratugum.

Ég minnist þess að ég var fyrsti ræðumaðurinn á Gay Pride. Þá var sú hátíð hafin á Ingólfstorgi og það var slyndra af fólki sem mætti, hugsanlega 200 manns. Síðan hefur þetta þróast í 100 þúsund manna gleðihátíð á hverju sumri, sem sýnir hvernig íslenskt samfélag hefur gjörbreyst hvað viðhorf varðar og að hinsegin fólki er tekið opnum örmum. Þá er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að löggjöf hér og allur umbúnaður þessara mála sé með þeim hætti að Ísland geti áfram verið þar sem það var, í fylkingarbrjósti. Ég er sannfærður um að er þessu þingi sleppir þá mun örugglega nást, í anda samstarfs og skilnings allra flokka á þessum málaflokki frá fyrri árum, góð samstaða um að ljúka þessu máli og fela hæstv. félagsmálaráðherra að hrinda af stað þessari vinnu sem leiðir vonandi sem fyrst til þess að aðgerðaáætlun á þessu sviði verður lögð fram og henni hrundið í framkvæmd.